Dæmdir fyrir að birta skopmyndir af Múhameð spámanni

Mikil reiði greip um sig þegar birtar voru skopmyndir af …
Mikil reiði greip um sig þegar birtar voru skopmyndir af Múhameð spámanni Reuters

Ritstjóri og blaðamaður í Jemen voru í dag dæmdir fyrir birtingu á skopteikningum af Múhameð spámanni. Akram Sabra, ritstjóri vikuritsins Al-Hurriya, og blaðamaðurinn Yahia al-Abed fengu fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir myndbirtinguna og þeim er einnig bannað að skrifa í blöð í einn mánuð. Blaðið má heldur ekki koma út í einn mánuð samkvæmt niðurstöðu dómstóls í Jemen.

Al-Hurriya er þriðja blaðið í Jemen sem er dæmt fyrir myndbirtingar af Múhameð spámanni sem fyrst birtust í Jótlandspóstinum í september í fyrra. Olli myndbirtingin mikilli ólgu meðal múslima víða um heim.

Í síðustu viku var ritstjóri Observer í Jemen dæmdur til að greiða sekt fyrir birtingu skopmyndanna og í nóvember var ritstjóri Al-Rai Al-Aam dæmdur í árs fangelsi fyrir myndbirtinguna og var honum einnig bannað að skrifa í blöð í sex mánuði. Jafnframt var útgáfa á hans eigin tímariti bönnuð. Hins vegar var dómi yfir ritstjóranum breytt einungis tveimur tímum eftir að hann var lesinn upp. Þarf ritstjórinn ekki að sæta fangelsi en bann við ritun og útgáfu var hins vegar látið standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert