Á lífi eftir 11 daga í rústum

Áttræðum karlmanni var bjargað úr húsarústum 11 dögum eftir að jarðskjálftinn mikli reið yfir í Kína. Maðurinn, sem er lamaður að hluta til, lifði vistina af vegna þess að eiginkona hans gat komið til hans mat og vatni, að sögn kínverska ríkissjónvarpsins.

Maðurinn heitir Xiao Zhihu en hann festist undir burðarstólpa þegar hús hans í borginni Mianzhu hrundi í skjálftanum. Björgunarsveitir hafa reist tjald fyrir Xiao fjölskylduna þar sem hún getur hafst við þar til hús hennar verður endurbyggt. 

Tilkynnt var í dag að 62.664 hefðu fundist látnir eftir skjálftann og 23.775 er enn saknað.  Búist er við mikilli úrkomu á skjálftasvæðunum á næstu dögum og er óttast að aurskriður kunni að falla og auka enn á erfiðleikana.

Ríkisstjórn Kína hefur sagt, að þrjú ár muni taka að endurbyggja Sichuanhérað eftir skjálftann en einn af hverjum fimm íbúum á skjálftasvæðunum hefur minnst heimili sitt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert