Myrt í fríi sínu á Indlandi

Scarlett Keeling, stúlkan sem fannst látin á Anjuna strönd á …
Scarlett Keeling, stúlkan sem fannst látin á Anjuna strönd á Indlandi í febrúar 2008.

Saksóknari á Indlandi hefur ákært tvo menn vegna morðsins á bresku táningsstúlkunni Scarlett Keeling í suðausturhluta landsins í fyrra. Stúlkan var drepin þar sem hún dvaldi með fjölskyldunni sinni í hálfs árs fríi á Indlandi. 

Samson D'Souza og  Placido Carvalho eru báðir ákærðir fyrir manndráp og fyrir að beita fórnarlamb sitt ofbeldi með það að markmiði að „misbjóða velsæmi hennar“, eins og það er orðað í yfirlýsingu frá Central Bureau of Investigation (CBI). Jafnframt eru þeir ákærðir fyrir að byrla henni ólyfjan í því skyni að valda henni meini.

Málið var tekið fyrir í fylkinu Goa sem er á vesturströnd landsins. Þegar það kom upp snemma árs 2008 hélt lögreglan í Goa því fram að Keeling hefði drukknað en lík hennar fannst illa útleikið og hálfbert á ströndinni Anjuna, sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna.

Móðir stúlkunnar, Fiona MacKeown, sætti sig ekki við niðurstöðu lögreglu.  Sökum þrýstings frá henni létu stjórnvöld framkvæma aðra krufningu og fóru með málið sem morðmál. Rannsókn málsins var í framhaldinu sett í hendurnar á CBI. Lögmaður MacKeown óskaði eftir því að mennirnir tveir yrðu sóttir til saka fyrir nauðgun og morð en ákærur CBI eru nokkuð mildaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert