Neita ásökunum Ísraela

Víða í heiminum hefur árás Ísraela verið mótmælt og er …
Víða í heiminum hefur árás Ísraela verið mótmælt og er höfuðborg Bandaríkjanna þar ekki undanskilin Reuters

Aðgerðarsinnar sem voru um borð í skipunum sem fluttu hjálpargögn til Gaza og Ísraelsher réðst gegn neita ásökunum Ísraela um að skipverjar hafi beitt hnífum og öðrum vopnum gegn hermönnunum. Þeir segja hins vegar að hermennirnir hafi skotið á óvopnaða almenna borgara á skipunum. Eins hafi hermennirnir notað táragas og rafbyssur á fólkið um borð. Að minnsta kosti níu létust í árásinni.

Ísraelar halda því fram að fólkið um borð hafi ráðist gegn hermönnunum með kylfum og hnífum er þeir komu um borð. Þýsk vitni að árásinni segja hins vegar ekkert hæft í þessu. Það eina sem hægt væri að telja sem vopn í höndum skipverja hafi verið prik úr við.

Norman Paech, 72 ára gamall fyrrverandi þingmaður í Þýskalandi, sagði við fréttamenn í dag í Berlín að stjórnvöld í Ísrael sé með ásökunum sínum að reyna að réttlæta árásina.

Þýskur læknir  Matthias Jochheim, sem einnig var um borð, sagði fréttamönnum að hann hefði séð fjóra látna um borð og taldi að fimmtán hafi látist í árásinni. Buxur hans voru blóðugar eftir að hafa sinnt slösuðum um borð.

Paech, sem var þingmaður öfgavinstri flokksins, Die Linke, segist hafa tekið myndir um borð í skipinu sem hann var á en myndavélin hafi verið gerð upptæk.

Hann segir að árás Ísraela sé ekkert annað en sjórán, árás sem var gerð á alþjóðlegu hafsvæði. Undir þetta taka fleiri Þjóðverjar sem voru um borð í hjálparskipunum,  Inge Hoeger og Annette Groth. „Okkur leið eins og við værum í stríði. Eins og það væri verið að ræna okkur," sagði Hoeger við komuna til Berlínar.

Að sögn Stephen Smith, utanríkisráðherra Ástralíu, þá þurfti Ástrali að fara í skurðaðgerð en hann hafði fengið skot í fótinn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir snemma í morgun að það krefðist rannsóknar á  árás Ísraela á skipin sem voru á leið til Gaza.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá öryggisráðinu er árásin fordæmd og þess krafist að skipin og þeir sem voru um borð verði sleppt strax. Að rannsókn á atvikinu hefjist þegar og hún verði gagnsæ.

Stjórnvöld víða um heim fordæmdu í dag og í gær árásina. Stjórnvöld í Bandaríkjunum, nánustu bandamenn Ísraela, sögðust harma manntjónið og vera að afla upplýsinga um „þennan harmleik“. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, var í Kanada, á leiðinni til Bandaríkjanna og hugðist ræða við Barack Obama í Hvíta húsinu í dag en ákvað að aflýsa heimsókninni vegna árásarinnar. Kvaðst Netanyahu harma atvikið en lagði þó jafnframt áherslu á að hermennirnir hefðu verið að verja sig eftir að hafa sætt barsmíðum og verið stungnir með eggvopnum.

Annette Groth, Inge Hoeger og Norman Paech við komuna til …
Annette Groth, Inge Hoeger og Norman Paech við komuna til Berlínar í dag Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert