Minnast hinna látnu með böngsum og blómum

Þúsundir hafa lagt leið sína að Sandy Hook grunnskólanum í Newtown í Connecticut í Bandaríkjunum og lagt þar mjúkdýr, kerti og blómvendi til minningar um börnin 20 og þá sex starfsmenn skólans sem létust þar fyrir hendi skotmanns síðastliðinn föstudag.

Jólatrjám hefur verið komið upp við skólann og hafa þau verið prýdd leikföngum og böngsum.

„Okkur öllum finnst það vera skylda okkar að koma hingað,“ sagði laganeminn Samantha Wong sem lagði litla hvíta leikfangakanínu á eitt jólatréð í morgun. 

Leikfangasöfnun er hafin í Newtown, fyrir þau börn sem lifðu hryllinginn af og spyrja óteljandi spurninga. Foreldrar þeirra eru ekki síður óttaslegnir og vita ekki hvernig þeir eiga að svara spurningum barna sinna. 

Patricia Dimasi er búsett í næsta bæ, Southbury. Henni hefur ekki komið dúr á auga síðan á föstudaginn „Ég hugsa stöðugt um fjölskyldur barnanna sem voru myrt. Hvernig líður þeim núna?“ sagði Dimasi í samtali við AFP-fréttastofuna. Sonur hennar er á leikskóla, en ekki hefur verið ákveðið hvort þeir verði opnir í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert