Ódæðismaður sagður sérvitur og einrænn

AFP

Adam Lanza, ódæðismanninum sem myti 26 í Sandy Hook barnaskólanum í Connecticut í Bandaríkjunum á föstudaginn, er lýst sem þöglum, einrænum sérvitringi af þeim sem þekktu til. „Hann var skrýtinn og þögull sem barn. Við kynntumst aldrei hans raunverulega persónuleika. Skyndilega féll hann út af radarnum fyrir 7-8 árum og lét í kjölfarið lítið fyrir sér fara,“ segir fyrrverandi skólafélagi um Adam Lanza.

Heimildarmönnum ber saman um að Adam hafi forðast athygli, þá greina fjölmiðlar frá því að Adam hafi forðast samskiptamiðla öfugt við vel flesta jafnaldra sína. Ryan bróðir Adams segir bróður sinn hafa átt við sálræna erfiðleika að stríða um skeið. Ryan var fyrst tengdur við ódæðið en í fjölmiðlum kom síðar fram að ekkert benti til að hann tengdist því. „Hann átti það til að taka reiðiköst, allt önnur og meiri heldur en venjulög börn taka,“ segir fyrrverandi nágranni. Adam er hinsvegar lýst sem afbragðs námsmanni og hann hlaut fjölda verðlauna fyrir námsárangur.

Foreldrar Adam skildu árið 2008. Adam bjó hjá móður sinn en hann myrti hana á heimili þeirra áður en hann hélt í barnaskólann og hóf skothríðina. Á föstudag greindu fjölmiðlar frá því að Adam hefði myrt föður sinn en það var síðan dregið til baka.

Skaut fórnarlömbin ítrekað

Í skothríðinni notaði hinn 20 ára gamli Adam herriffil og tvær skammbyssur sem báðar voru skráðar á móður hans, sem er sögð hafa verið áhugamanneskja um byssur og átti að minnsta kosti þrjár í viðbót samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs.

Af fórnarlömbunum 26 voru 20 börn og sex fullorðnir. Börnin voru á aldrinum sex til sjö ára. Samkvæmt dánardómstjóra skaut byssumaðurinn fórnarlömb sín allt að ellefu sinnum.

Meðal fullorðinna fórnarlambanna voru skólastjórinn Dawn Hochsprung. Nýlega höfðu öryggisferlar í skólanum verið uppfærðir. Eftir að börn mættu til kennslu hvern morgun var skólanum læst kl. 9.30. Utanaðkomandi aðilar sem áttu leið í skólann þurftu að hringja bjöllu til að fá aðgang og sýna skilríki til að komast inn.

Rannsókn lögreglu á vettvangi og á heimili Adams stendur enn en foreldri sem var inni í skólanum meðan skotárásin stóð yfir sagðist hafa heyrt að minnsta kosti 100 byssuskot. Skotárásin fór að mestu fram í tveimur skólastofum. Adam fannst látinn á vettvangi og virðist hafa fallið fyrir eigin hendi.

Bekkur faldi sig inni á salerni

Frásagnir vitna af atburðinum eru vægast sagt hræðilegar. „Þetta var hræðilegt,“ sagði Katherine Roig, kennari í þriðja bekk sem komst lífs af í árásinni, í samtali við fréttastofu ABC. Roig safnaði nemendum sýnum inn á salerni í kennslustofunni. „Ég læsti okkur þar inni. Ég veit ekki hvort byssumaðurinn kom inn í stofuna, ég sagði krökkunum bara að hafa hljóð. Ég reyndi að hughreysta þau sem grétu,“ sagði Roig og viðurkenndi að á þeirri stundu hefði hún efast um að þau kæmust lífs af. Hún segir skothríðina ekki hafa staðið yfir lengi en þegar henni hafi lokið hafi hún haldið krökkunum inni á salerninu. Hún neitaði jafnvel að opna fyrir lögreglumönnum þegar þeir bönkuðu á hurðina og krafði þá um skilríki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert