Byssulöggjöfinni mótmælt í Washington

Þúsundir tóku þátt í mótmælagöngu í Washington í Bandaríkjunum í dag þar sem þess var krafist að byssulöggjöfin yrði hert í landinu.

Meðal þeirra sem komu að göngunni eru menntamálaráðherra Bandaríkjanna, borgarstjórinn í Washington auk fleiri háttsettra ráðamanna í bandarískum stjórnmálum.

Fyrir sex vikum voru 20 börn og sex fullorðnir skotnir til bana í Sandy Hook-skólanum í Newtown, Connecticut. Í kjölfarið hefur byssueign Bandaríkjamanna og byssulöggjöfin verið mikið í umræðunni.

Barack Obama Bandaríkjaforseti kynnti nýverið nýjar tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við skotárásum. Forsetinn lagði m.a. til bann við árásarrifflum, takmarkanir á stærð skothylkja og að skylt yrði að kanna bakgrunn allra sem vilja kaupa byssur til að koma í veg fyrir að þær komist í hendur glæpamanna. Auk slíkra lagabreytinga boðaði Obama ýmsar aðgerðir sem hann getur gripið til án samþykkis þingsins.

Samkvæmt skoðanakönnun sem ABC News birti í vikunni styðja 53% Bandaríkjamanna hugmyndir Obama á meðan 41% eru andsnúnir.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert