Framtíðin óviss í Írak 10 árum eftir innrás

Innrásin í Írak hófst þann 20. mars 2003 með loftárásum …
Innrásin í Írak hófst þann 20. mars 2003 með loftárásum í höfuðborginni Bagdad. AFP

Engin hátíðahöld voru í Bagdad í dag, á afmælisdegi Íraksstríðsins, en 10 ár eru liðin síðan innrás var gerð í landið með loftárás á höfuðborgina. Markmiðið var að gera Írak að traustu lýðræðisríki í Miðausturlöndum en eftir áratug er stjórnmálaástandið þar ótryggt og ofbeldi geisar enn. 

Í meðfylgjandi myndasyrpu eru innrásin í Írak og stríðsátökin í kjölfarið rifjuð upp.

Gærdagurinn var sá blóðugasti í landinu í 6 mánuði, og létust 56 manns í röð sprengju- og skotárása sem gerðar voru í Írak í gær að undirlagi Al-Qaeda. Að jafnaði hafa 10 manns látið lífið á á hverjum degi í þessum mánuði.

Draumur að losna við Saddam - en allt annað martröð

Að sögn Afp hefur lítið verið minnst á tímamótin í Írak í dag en líklegra sé að eitthvað verði gert þann 9. apríl þegar 10 ár eru liðin síðan Bagdad féll. 

„Það var draumur að losna við Saddam, að því leiti var þetta jákvætt sem þeir gerðu, en allt sem kom í kjölfarið er neikvætt,“ hefur Afp eftir Raad Mohammed, 51 árs gömlum ljósmyndara á Tahrir torgi í Bagdad í dag. „Nú lifum við öll í harmleik og ekkert hefur verið afrekað undanfarin 10 ár.“

Annar Bagdad búi sem blaðamaður Afp gaf sig á tal við, Sabah Shawki, benti þó á að þótt ofbeldið í landinu hafi verið skelfilegt og innviðir landsins séu í rúst, þá hafi innrásin að minnsta kosti fært honum trúfrelsi.

„Nú get ég beðið til míns Guðs,“ segir Shawki, sem er 34 ára sjíta múslími. „Á tímum Saddam mátti ég aðeins biðja til þess guðs sem hann sagði að ég mætt tilbiðja.“

112 þúsund almennir borgarar féllu

Tilefni innrásarinnar í Írak var meint gjöreyðingarvopnabúr Saddam Hussein, sem aldrei fannst. Kastljósinu var þá í snarlega beint að því í staðinn að koma á stöðugleika í Írak sem ríki hliðhollu Vesturlöndum.

Stríðið sjálft stóð í sjálfu sér stutt, það hófst 20. mars 2003, Bagdad féll nokkrum vikum síðar og George W Bush Bandaríjkjaforseti og helsti ábyrgðarmaður stríðsins lýsti því yfir þann 1. maí sama ár, eins og frægt er orðið, að markmiðinu væri náð og stríðinu lokið. („Mission accomplished“.)

Áratugurinn sem á eftir fylgdi hefur hins vegar verið afar blóðugur í Írak, bresku samtökin Iraq Body Count og læknatímaritinu Lancet telst til að yfir 112.000 almennir borgarar hafi látið lífið. Dauðsföllin náðu hámarki á árunum 2006 og 2007, nokkrum árum eftir að Bush lýsti stríðinu lokið.

Frá árinu 2008 hefur tekist að draga úr ofbeldinu en pólitískar sættir hafa aldrei náðst að fullu í landinu. Í norðri er deilt um yfirráð yfir landi og ágreiningur er um úthlutun helstu orkuauðlinda landsins svo nefnd séu tvö af risastórum deilumálum sem ekki eru leist í Írak.

Í gær tilkynntu stjórnvöld að sveitastjórnarkosningum sem fara áttu fram 20. apríl, og hefðu verið fyrstu kosningar í landinu í 3 ár, verði frestað í héröðunum Anbar og Nineveh, af öryggisástæðum vegna hótana við frambjóðendur.

Mennirnir á bak við innrásina enn umdeildir

Mennirnir sem stóðu á bak við ákvörðunina um innrás í Írak munu aldrei losna við hið langa og blóðuga stríð af ferilskránni hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir ætluðu að reisa Miðausturlönd úr öskustónni en raunin varð önnur. Nú 10 árum síðar eru þeir enn víða fordæmdir fyrir framgöngu sína þótt aðrir telji að ástandið hefði ella orðið enn verra.

George W Bush forseti Bandaríkjanna og um leið æðsti yfirmaður Bandaríkjahers bar hitann og þungann af þeirri ákvörðun að ráðast inn í Írak í trássi við vilja Sameinuðu þjóðanna. Verkefninu var hvergi nærri lokið í maí 2003 eins og hann lýsti yfir heldur átti Íraksstríðið eftir að lita alla hans forsetatíð og arfleifð hans á forsetastóli til frambúðar.

Hættur að reyna að sannfæra fólk

Tony Blair þáverandi forsætisráðherra Bretlands mátti líka galda í vinsældum fyrir þá ákvörðun sína að fara með Bandaríkjamönnum í stríð sem meirihluti Breta var frá upphafi andsnúinn. „Ég er fyrir löngu síðan búinn að gefast upp á því að reyna að sannfæra fólk um að þetta hafi verið rétt ákvörðun,“ sagði Blair í viðtali við BBC í gær. Sjálfur sagðist hann ekki sjá eftir þeirri ákvörðun sinni að taka þátt í því með Bandaríkjamönnum að steypa Saddam Hussein af stóli. 

Ólíkt Blair virðist Dick Cheney, þáverandi varaforseti Bandaríkjanna, ekki láta sig neinu varða þótt almenningsálitið sé ekki með honum hvað Íraksstríðið varðar. Varaforsetinn er sagður hafa verið afar áhrifamikill á fyrra kjörtímabili Bush, en eftir því sem harðnaði í álnum á síðara kjörtímabilinu hafi traust Bush á honum minnkað. Hann efast í engu um að innrásin hafi verið rétt ákvörðun.

„Ef þú vilt vera elskaður, þá skaltu gerast kvikmyndastjarna,“ er haft eftir Cheney í væntanlegri heimildarmynd sem bera mun titilinn „The World According to Dick Cheney.“  Í heimildamyndinni kemur fram að Cheney neitar enn að trúa því að Saddam Hussein hafi ekki verið að framleiða gjöreyðingarvopn.

Slæm skipulagning og rangar upplýsingar

Varnarmálaráðherrann Donald Rumsfeld hafði unnið bak við tjöldin í efstu lögum bandarískra stjórnmála allt frá forsetatíð Richard Nixon en steig fram í sviðsljósið árið 2003 sem einn helsti talsmaður innrásarinnar í Írak. Hann var síðar gagnrýndur harðlega af herforingjum fyrir slæma skipulagningu innrásarinnar.

Íraski bankamaðurinn Ahmed Chalabi var leiðtogi íraska þjóðarráðsins, útlægra stjórnarandstæðinga Saddams. Bandaríkjamenn litu á Chalabi sem einn helsta bandamann sinn og gerðu ráð fyrir að hans menn tæku jafnvel við stjórnartaumunum fyrst um sinn eftir fall Saddams. Úr því var þó aldrei, í ljós kom að Chalabi hafði matað Pentagon á fölskum upplýsingum sem notaðar voru sem forsenda fyrir innrásinni.

Paul Wolfowitz, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, var einna fyrstur til að kalla eftir innrás í Írak eftir árásina á tvíburaturnana 11. september 2001. Hann er sá úr hópi æðstu manna sem hefur komist hvað næst því að viðurkenna að hin opinberi málflutningur um stríðið hafi verið hannaður til að auka stuðning við innrás.

„Af ástæðum sem hafa ýmislegt að gera með skrifræði bandarísku ríkisstjórnarinnar þá náðum við saman um eitt atriði sem allir ættu að geta verið sammála um, sem var að gjöreyðingarvopn væru aðalástæðan fyrir innrás,“ sagði Wolfowitz.

Fjölskyldur flýja Basra í suðurhluta Íraks þann 30. mars 2003, …
Fjölskyldur flýja Basra í suðurhluta Íraks þann 30. mars 2003, 10 dögum eftir að innrásin hófst. AFP
Íraskur maður hleypur til móts við breskar hersveitir á leið …
Íraskur maður hleypur til móts við breskar hersveitir á leið út úr Basra 6. apríl 2003. AFP
Valdhafarnir á bak við stríðið í Írak.
Valdhafarnir á bak við stríðið í Írak. AFP
Breskur hermaður fylgist með brennandi olíulindum í suðurhluta Írak 23. …
Breskur hermaður fylgist með brennandi olíulindum í suðurhluta Írak 23. mars 2003. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert