10 dularfyllstu flugslysin

Amelia Earhart við flugvélina sem hún hvarf í 1937.
Amelia Earhart við flugvélina sem hún hvarf í 1937. Ljósm. Smithsonian stofnunin/NASA

Margir eru slegnir óhug yfir hvarfi farþegaflugvélar Malasya Airlines 370, en þetta er ekki fyrsta flugvélin sem hverfur af ratsjám og gerir rannsakendum erfitt fyrir. BBC hefur tekið saman lista yfir 10 dularfyllstu flugslys sögunnar.

Amelia Earhart 1937

Efst á lista er hin fræga hinsta för Ameliu Earhart, sem hvarf sporlaust árið 1937 þegar hún gerði tilraun til að fljúga umhverfis hnöttinn. Earhart var á flugi yfir Kyrrahafi þegar hún hvarf og þrátt fyrir margítrekaða leitarleiðangra hefur aldrei fundist svo mikið sem brak úr tveggja hreyfla vélinni hennar.

Earhart var lýst látin tveimur árum eftir hvarfið, en enn þann dag í dag leita menn vísbendinga um örlög hennar. Sjá umfjöllun mbl.is: Hetjan sem hlaut dularfull örlög

Air France flug 477

Flestum er enn í fersku minni hvarf farþegaþotu Air France frá Rio de Janeiro til Parísar árið 2009. Fimm sólarhringar liðu frá því vélin hvarf af ratsjám og þar til fyrstu vísbendingar um örlög hennar fundust í sjónum. Svarta boxið var ekki endurheimt af sjávarbotni fyrr en tveimur árum síðar, á 4.000 metra dýpi. Enginn af 228 farþegum lifði af.

Egypt Air flug 990

Hinn 31. október 1999 hrapaði farþegaþota Egypt Air í Atlantshafið, á leið frá New York til Kaíró. Um borð voru 217 manns sem létu öll lífið.

Bandarískir rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að aðstoðarflugmaðurinn hefði viljandi brotlent vélinni, vegna þess að hann hafði skömmu áður fengið áminningu frá flugfélaginu vegna kynferðislegrar áreitni.

Egypski rannsóknarhópurinn sagði hins vegar að vélarbilun hefði valdið slysinu.

Star Dust 1947

Ýmsar samsæriskenningar komust á flug um hvarf farþegaflugvélar flugfélagsins Star Dust, yfir Andesfjöllum í Argentínu árið 1947. Vélin var á leið frá Buenos Aires til Santiago í Síle.

Leit að vélinni bar engan árangur og var bæði hryðjuverkamönnum og geimverum kennt um hvarfið. 50 ár liðu áður en fjallgöngumenn gengu fyrir tilviljun fram á flak vélarinnar. Niðurstaða rannsóknar á því varð sú að flugmennirnir hefðu ruglast vegna slæms veðurs og skyggnis og stýrt henni of snemma til lendingar.

Bermúdaþríhyrningurinn

Þjóðsagan segir að fjöldi skipa og flugvéla hafi horfið sporlaust síðustu áratugi í Bermúdaþríhyrningnum svonefnda, hafsvæðinu milli Bermúda, Flórída og Púertó Ríkó.

Raunveruleikinn er sá að á 5. áratugnum hröpuðu tvær flugvélar félagsins British South American Airways á þessu svæði. Niðurstöður rannsóknar sem BBC stóð fyrir árið 2009 benda til þess að meiriháttar vélarbilun hafi valdið því að önnur vélin hrapaði, en hin virðist hafa orðið eldsneytislaus.

Mannát í Andes-fjöllum

45 manns voru um borð í flugi númer 571, á leið frá Úrúgvæ til Síle, þegar vélin hrapaði í Andesfjöllum árið 1972. Báðir vængir vélarinnar rifnuðu af þegar hún skall utan í fjallshlíðum áður en hún brotlenti á snævi þöktu hálendinu.

Þrátt fyrir þetta lifði um helmingur farþega bæði slysið og 72 daga þolraun á fjallinu áður en björgunarsveitir náðu til þeirra. Eftirlifendurnir 16 viðurkenndu síðar að hafa gripið til mannáts til að halda lífi. Saga þeirra var sögð í kvikmyndinni Alive árið 1993.

Sprakk í háloftunum

Örfáum mínútum eftir að flugvél bandaríska flugvélagsins Trans World Airlines fór í loftið frá JFK-flugvelli í New York 17. júlí 1996 sprakk hún í tætlur með þeim afleiðingum að allir um borð, 230 manns, létust.

Rannsókn leiddi í ljós rafmagnsbilun sem olli sprengingu í öðrum eldsneytistanki vélarinnar. Vitnisburðir sjónarvotta urðu engu að síður tilefni margra samsæriskenninga á netinu, því margir töldu víst að vélin hefði verið skotin niður.

M.a. fullyrti fyrrverandi blaðafulltrúi Johns F. Kennedys Bandaríkjaforseta að vélin hefði orðið fyrir æfingaflugskeyti Bandaríkjahers. Sú kenning var fljótt skotin niður.

Hrapaði í miðja eyðimörkina

Í síðari heimsstyrjöld fór bandaríska sprengjuflugvélin Lady Be Good í árásarferð yfir Napólí á Ítalíu, en skilaði sér aldrei aftur í herstöðina í Líbíu. Talið var að hún hefði hrapað í Miðjarðarhafið og áhöfnin, níu manns, var sögð látin.

Raunin var sú að vegna tæknivandamála hafði vélin flogið yfir herstöðina og áfram inn í Norður-Afríku þar sem áhöfnin stökk á endanum út í fallhlífum. Átta af níu lifðu stökkið af og þeir gengu um 160 km áður en þeir létu lífið vegna þorsta.

Vélin fannst ekki fyrr en 15 árum síðar, þegar breskt olíuleitarfélag gekk fram á brakið í miðri eyðimörkinni. Sprengjur og vélbyssur vélarinnar reyndust enn virkar.

Ævintýri auðjöfurs enduðu með brotlendingu

Bandaríski ævintýramaðurinn Steve Fossett, fyrsti maðurinn til að fljúga umhverfis hnöttinn án þess að fylla á eldsneytið, lagði af stað í aðra för frá einkaflugvelli sínum í Nevada hinn 3. september 2007, en sást aldrei framar.

Umfangsmikil leit var gerð að honum, meðal annars í gegnum Google Earth-forritið. Brak flugvélarinnar fannst loks mánuði síðar og sögðu rannsakendur að líklega hefði hún hrapað vegna snarpra sviptivinda.

Tískumógúll hverfur í hafið

Framkvæmdastjóri ítalska tískuhússins Missoni lét lífið, ásamt eiginkonu sinni og sex öðrum, þegar lítil farþegaflugvél hvarf undan ströndum Venesúela í janúar 2013. 

Sex mánuðir liðu áður en kafarar fundu flugvélarflakið á hafsbotni og lífsýni sýndu að Missoni-hjónin voru meðal hinna látnu. Þetta var í annað sinn á stuttum tíma sem flugvél hvarf á þessu hafsvæði, sem hefur af sumum verið kallað „hinn nýi Bermúdaþríhyrningur“.

Fyrsta brakið úr flugvél Air France fannst 5 dögum eftir …
Fyrsta brakið úr flugvél Air France fannst 5 dögum eftir að hún hvarf. Reuters
Fokker flugvélin Fairchild FH-227D sem hrapaði í Andesfjöllum. 16 af …
Fokker flugvélin Fairchild FH-227D sem hrapaði í Andesfjöllum. 16 af 72 lifðu af.
Steve Fossett áður en hann lagði af stað í hnattflugið.
Steve Fossett áður en hann lagði af stað í hnattflugið. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert