Ástríki sjóliðinn fallinn frá

Kossinn frægi á Times Square þann 14. ágúst 1945. Þetta …
Kossinn frægi á Times Square þann 14. ágúst 1945. Þetta er að vísu ekki myndin sem Eisenstaedt tók. Heldur á ljósmyndarinn Victor Jorgensen, sem tók myndir fyrir bandaríska sjóherinn, heiðurinn af þessari mynd. mynd/Wikipedia

Ljósmynd af bandarískum sjóliða kyssa hjúkrunarkonu er fyrir löngu orðin að tákni fyrir endalok seinni heimstyrjaldarinnar. Talið er að Glenn McDuffie frá Texas hafi verið sjóliðinn en nú er greint frá því að McDuffie hafi látist 86 ára að aldri.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að hann hafi látist á hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Dallas. 

Hann fullyrti að hann væri maðurinn á myndinni og starfsmaður tæknideildar lögreglu renndi stoðum undir þá fullyrðingu McDuffies. 

Ljósmyndarinn Alfred Eisenstaedt tók myndina frægu á Times Square í New York þann 14. ágúst árið 1945, daginn sem Japanir lýstu yfir ósigri í seinna stríði. 

McDuffie sagði við bandaríska fjölmiðla að hann hefði verið að skipta um jarðlest þegar hann heyrði að Japan hefði gefist upp. „Hún stóð þarna á miðri götunni [...] Ég gekk þangað og kyssti hana,“ sagði McDuffie.

„Ég var svo glaður. Ég hljóp út á götu,“ sagði McDuffie, sem var 18 ára gamall og á leiðinni að heimsækja kærustu sína. 

Edith Shain, sem starfaði á nálægu sjúkrahúsi, hélt því fram að hún væri konan á myndinni. Hún lést árið 2010. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert