Rússum sparkað út úr G8

Frá fundi G7-ríkjanna í dag.
Frá fundi G7-ríkjanna í dag. AFP

Leiðtogar sjö helstu efnahagsvelda heims hafa ákveðið að Rússar fái ekki að vera með í G8-ríkjahópnum - sem áður taldi átta helstu efnahagsveldi heimsins. Á fundi ríkjahópsins sem þá nefnist G7 var einnig ákveðið að herða viðskiptaþvinganir ef Rússum tekst ekki að lægja öldurnar í samskiptum sínum við Úkraínu.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að það væri ekkert stórmál fyrir Rússa þótt þeim væri gert að víkja úr G8. „Ef félagar okkar á Vesturlöndum halda að þetta fyrirkomulag eigi ekki við lengur þá er það bara þannig. Í öllu falli erum við ekki að reyna að halda í það og það væri ekkert stórmál fyrir okkur þó að G8-ríkin hættu að hittast,“ sagði Lavrov.

Á sama tíma funduðu leiðtogar G7-ríkjanna, þ.e. Bandaríkjanna, Japans, Þýskalands, Ítalíu, Frakklands, Kanada og Bretlands, um hvort vísa ætti Rússum úr hópnum og frekari refsiaðgerðir.

Eftir fundinn var gefið út að Rússum hafi verið vikið úr samstarfinu auk þess sem atkvæðagreiðslan í Krím var fordæmd, enda brjóti hún gegn stjórnarskrá Úkraínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert