Reynt að myrða Musharraf

Fyrrverandi forseti Pakistans, Pervez Musharraf, sem er ákærður fyrir landráð, slapp naumlega er tilraun var gerð til þess að myrða hann fyrr í dag.

Sprengju hafði verið komið fyrir á veginum þar sem ekið er með Musharraf af hersjúkrahúsinu í  Rawalpindi þar sem hann hefur dvalið frá því í janúar að heimili hans í Islamabad. Sprengjan sprakk skömmu áður en bílalest hans átti að fara um veginn. Enginn særðist í árásinni og enginn hefur lýst yfir ábyrgð á tilræðinu.

Ítrekað hefur verið reynt að myrða Musharraf frá árinu 2003 en hann er talinn hafa átt aðild að morðinu á stjórnarandstöðuleiðtoganum Benazir Bhutto. Eftir morðið á Bhutto í desember árið 2007 lýsti ríkisstjórn Musharraf ábyrgðinni á hendur leiðtoga talíbana í Pakistan, Baitullah Mehsud, en hann neitaði að hafa átt þátt í tilræðinu.

Musharraf sagði af sér sem forseti árið 2008 og var þá talið að hann hefði fallist á að segja af sér eftir að hafa náð samkomulagi við stjórn landsins fyrir milligöngu vestrænna ríkja um að hætta við málshöfðun um spillingu í starfi gegn því að hann léti af embætti. 

Musharraf varð forseti árið 1999 en hann stýrði valdaráni hersins í Pakistan í október það ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert