Saksóknari rannsakar barkaígræðslu

Frá Karolinska sjúkrahúsinu þar sem aðgerðin var framkvæmd.
Frá Karolinska sjúkrahúsinu þar sem aðgerðin var framkvæmd. AFP

Saksóknari í Svíþjóð hefur hafið rannsókn á máli Eritríubúans Andemariam Teklesenbet Beyene, en hann lést eftir að hafa fengið barkaígræðslu á Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Beyene var á þessum tíma í meistaranámi í jarðeðlisfræði hér á landi.

Aðgerðin sem Beyene undirgekkst var sú fyrsta sinnar tegundar sem framkvæmd var í heiminum. Var það „stjörnuskurðlæknirinn “ Paolo Macchiarini sem stóð fyrir aðgerðinni, en auk hans tók íslenski læknirinn Tómas Guðbjartsson þátt í aðgerðinni, en hann hafði verið læknir Beyene hér á landi. Aðgerðin fólst í því að búa til nýjan barkavef úr gerviefnum og stoðfrumum sem teknar voru úr beinmerg Beyene. Vefurinn var svo græddur í háls hans á Karolinska sjúkrahúsinu.

Fimm dögum eftir aðgerðina gat Beyene andað á nýju, en hann hafði greinst með krabbamein og var æxlið það stórt að ómögulegt var að flytja það á hefðbundinn hátt. Ári eftir aðgerðina sagðist Beyene líða vel, en haustið 2013 hrakaði honum hratt og lést hann í janúar 2014. Macchiarini hefur alls sett gervibarka í alls átta manns, en af þeim eru sex látnir.

Niðurstöður aðgerðarinnar voru svo birtar í virta læknaritinu The Lancet, en fljótlega fóru læknar sem tóku þátt í aðgerðinni að gagnrýna það sem þar kom fram. Karl-Henrik Grinnermo, sagði meðal annars að í greininni hafi Macchiarini ekki tekið fram nein aukaáhrif eða vandamál í aðgerðinni, en Grinnermo og aðrir læknar við spítalann sem jafnframt tóku þátt í aðgerðinni segja að það sé fjarri sannleikanum. Þá kom einnig í ljós að Macchiarini og teymi hans hafði ekki fengið leyfi siðanefndar fyrir því að framkvæma slíkar aðgerðir í rannsóknarskyni.

Sjúkrahúsið fól í kjölfarið prófessornum Bengt Gerdin við skurðlækningasvið Uppsala háskólans að rannsaka málið og var niðurstaða hans sú að Macchiarini hafi gerst sekur um misferli og að þær upplýsingar sem hafi verið settar fram í rannsóknarskýrslum eftir aðgerðina hafi ekki verið samkvæmt sannleikanum. „Þetta er alvarlegt skref í burtu frá góðum rannsóknarháttum,“ sagði Gerdin í bréfi til forseta Karolinska sjúkrahússins vegna málsins. Macchiarini hefur sjálfur svarað sjúkrahúsinu á þann veg að ásakanirnar eigi ekki við rök að styðjast.

Frétt mbl.is: Ásakanir þvers og kruss

Frétt SVT um rannsókn saksóknara

Andemariam Teklesenbet Beyene
Andemariam Teklesenbet Beyene www.hi.is
Tómas Guðbjartsson var meðal þeirra lækna sem tóku þátt í …
Tómas Guðbjartsson var meðal þeirra lækna sem tóku þátt í aðgerðinni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert