„Tortímandinn“ segist saklaus

Réttarhöld yfir „Tortímandanum“ stríðsherranum fyrrverandi Bosco Ntaganda, hófust við Alþjóðaglæpadómstólinn, ICC, í Haag í morgun. Ákæran yfir Ntaganda er í átján liðum en hann er sakaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í Austur-Kongó. 

Ntaganda, sem gaf sig fram við sendiráð Bandaríkjanna í Kigali árið 2013, er sakaður um að hafa stýrt hundruðum árása í Austur-Kongó. Árásum sem kostuðu fleiri hundruð ef ekki þúsundir, lífið. Jafnframt er hann sakaður um að hafa neytt börn í hernað og að hafa nauðgað stúlkum í barnaher sínum.

Samkvæmt frétt AFP virtist stríðsherrann fyrrverandi, sem er 41 árs að aldri, vera rólegur og yfirvegaður þegar hann mætti í réttarsalinn í Haag í morgun.  Ntaganda ætlar að gefa yfirlýsingu við réttarhöldin, þá fyrstu síðan hann gaf sig óvænt fram fyrir tveimur árum.

Hann hefur neitað sök í öllum ákæruliðum en brotin voru framin í Ituri héraði á árunum 2002-2003.

60 þúsund létust í átökum sem barnahermenn voru neyddir til þess að fremja morð

Saksóknarar við ICC segja að „Tortímandinn“ hafi leikið lykilhlutverk í átökum milli ólíkra hópa í Austur-Kongó sem hófust árið 1999. Talið er að 60 þúsund hafi látist í þeim átökum.

Ntaganda safnaði saman hundruðum barna og notaði þau til þess að drepa og deyja í bardögum, sagði saksóknari í gær. Stúlkum, sem voru barnahermenn í her hans, var ítrekað nauðgað en alls hafa saksóknarar við ICC safnað saman vitnisburði frá yfir tvö þúsund fórnarlömbum hans. Vitnisburðurinn er skráður á átta þúsund blaðsíðum og munu 80 vitni mæta fyrir rétt í Haag. 13 þeirra eru sérfræðingar en hin eru fórnarlömb.

Þrír fyrrverandi barnahermenn í uppreisnarher Ntaganda, Patriotic Forces for the Liberation of Congo (FPLC), munu einnig bera vitni segja lögfræðingar þeirra.

Flúði frá Rúanda á unglingsaldri

Lögfræðingur Ntagandas, Stephane Bourgon, segir að skjólstæðingur hans muni reyna að sanna sakleysi sitt fyrir dómnum en sent er beint út frá réttarhöldunum í A-Kongó.

Ntagandas stofnaði M23 skæruliðahreyfinguna sem barðist gegn stjórn Austur-Kongó. Hreyfingin varð að játa sig sigraða árið 2013 eftir átján mánaða langt umsátur í Kivu héraði. Talið er að Ntaganda hafi óttast um líf sitt á flóttanum en enn hefur ekki fengist upplýst hvers vegna hann gaf sig sjálfviljugur fram í mars 2013.

„Tortímandinn“, sem er meðal annars þekktur fyrir örmjótt yfirvaraskegg, að vera með kúrekahatt á höfði og ást á góðum mat, er ákærður um stríðsglæpi í þrettán ákæruliðum og fimm varða glæpi gegn mannkyninu. Tvær handtökuskipanir voru gefnar út gegn honum af ICC, sú fyrri árið 2006 og sú síðari 2012.

Ntaganda er tútsi, fæddur árið 1973 í Rúanda og fyrrverandi félagi hans Thomas Lubanga var dæmdur í 14 ára fangelsi árið 2012 fyrir að hafa beitt börnum í hernaði. Ntaganda flúði til Austur-Kongó á unglingsárunum. Hann var sautján ára gamall þegar hann hóf að berjast, bæði með skæruliðum og sem hermaður í Rúanda og Austur-Kongó.

Saksóknari ICC, Fatou Bensouda, segir að Ntaganda sé jafn hættulegur og nígeríski skæruliðaleiðtoginn Joseph Konu. Það að hann fái að ganga laus líkt og saklaus maður sé óásættanlegt.

Þeir sem þekkja til segja að „Tortímandinn“ en nafngiftina hlaut hann fyrir miskunnarleysi sitt, segja að hann muni aldrei viðurkenna glæpi sína. Honum takist alltaf að bera fram afsakanir á því hvers vegna hann hafi „neyðst“ til að gera það sem hann hefur gert.

BBC segir að listinn sé langur yfir þá glæpi sem hann er sakaður um. Þar er haft eftir íbúum í A-Kongó að Ntaganda hafi verið þekktur fyrir að hafa verið í fremstu víglínu og tekið virkan þátt í bardögum. Í nóvember 2008 hafi útlenskir blaðamenn kvikmyndað hann að störfum þar sem hann fyrirskipaði hermönnum sínum að ráðast inn í þorpið Kiwanja, sem er í 90 km fjarlægð norður af Goma. Þar var 150 þorpsbúum slátrað á einum degi. 

Hann sést einnig fyrirskipa hermönnum sínum að ráðast til atlögu í bænum Mongbwalu í Ituri héraði, þar voru 800 íbúar drepnir vegna uppruna síns. Her Ntaganda náði yfirráðum í héraðinu sem hefur yfir gullnámum að ráða, árið 2002. 

Herforinginn fyrrverandi, Ntaganda Bosco, er meðal annars sakaður um að …
Herforinginn fyrrverandi, Ntaganda Bosco, er meðal annars sakaður um að hafa nauðgað og myrt börn í Austur-Kongó. AFP
Bosco Ntaganda sést hér í réttarsalnum í Haag í morgun.
Bosco Ntaganda sést hér í réttarsalnum í Haag í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert