Fyrsta handtakan vegna kynferðislegs ofbeldis á nýársnótt

Félagar í PEGIDA hafa ekki legið á skoðunum sínum þegar …
Félagar í PEGIDA hafa ekki legið á skoðunum sínum þegar kemur að flóttafólki. AFP

Lögreglan í Köln hefur handtekið 26 ára hælisleitanda frá Alsír sem er grunaður um kynferðislegt ofbeldi í borginni á nýársnótt. Maðurinn er sá fyrsti sem er handtekinn grunaður um kynferðislegt ofbeldi í Köln á nýársnótt.

Maðurinn var handtekinn í flóttamannaskýli í bænum Kerpen um helgina, að sögn saksóknara. BBC greinir frá þessu. Hann er sakaður um að hafa káfað á konu og að hafa stolið síma hennar.

Lögreglan í Köln rannsakar nú 21 mann vegna árásanna en nánast engin þeirra er vegna kynferðislegs ofbeldis.

Átta eru í haldi lögreglu, að sögn saksóknara, Ulrich Bremer. Flestir eru sakaðir um þjófnað.

Að sögn lögreglu hafa 883 lagt fram kæru vegna sakamála í Köln, þar á meðal hafa 497 konur lagt fram kæru vegna kynferðislegs ofbeldis. Alls er kært vegna 766 meintra glæpa, þar af eru þrjár nauðganir. 

Annar Alsírbúi, 22 ára, var einnig handtekinn í flóttamannabúðunum í Kerpen en hann er sakaður um að hafa stolið farsíma.

Yfirvöld í Köln og þýska ríkisstjórnin hafa verið undir miklum þrýstingi um að herða reglur gagnvart flótta- og farandfólki eftir að upplýst var um að margir karlar frá Norður-Afríku hafi markvisst ráðist á konur á nýársnótt. 

Í desember fjölgaði mjög hælisumsóknum í Þýskalandi frá Alsír og Marokkó. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu voru umsóknirnar frá þessum tveimur ríkjum innan við þúsund talsins í júní en í desember voru þær tæplega 2300 talsins. Hins vegar er nánast öllum Alsírbúum og fólki frá Marokkó synjað um hæli í Þýskalandi sem og í flestum ríkjum Evrópu.

Mega koma í sund á nýjan leik

Á sama tíma hafa yfirvöld í  bænum Bornheim afturkallað bann við því að karlmenn sem eru að sækja um hæli í Þýskalandi fari í sundlaug bæjarins. Bannið var sett vegna kvartana um áreitni. Í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum segir að þeir megi sækja sundlaugina á nýjan leik á morgun og ákvörðunin hafi verið tekin vegna þess að búið væri að ræða við flóttamenn um hvernig þeir eigi að koma fram við og virða konur. Fjölmiðlaumræða hafi ekki haft nein áhrif á þessa ákvörðun.

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert