Ólíklegt að árásarmennirnir finnist

AFP

Þrír menn frá Norður-Afríku sem sakaðir voru um þjófnað á nýársnótt í Köln voru dæmdir í dag. Hundruð kvenna sökuðu karla frá N-Afríku um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi þá nótt í borginni.

Lögreglustjórinn í Köln segir mjög ólíklegt að meirihluti þeirra náist en mikil umræða hófst í kjölfar árásanna um þann mikla straum flótta- og farandfólks til Þýskalands og hvernig þeim gengi að aðlagast þýsku samfélagi.

23 ára gamall maður frá Marokkó viðurkenndi að hafa stolið farsíma konu þessa nótt var dæmdur í sex mánaða fangelsi skilorðsbundið og til að greiða 100 evrur í sekt. Tveir ungir menn frá Túnis, 18 ára og 22 ára, eru ákærðir fyrir að hafa stolið myndavél af manni í mannþrönginni fyrir utan lestarstöðina í Köln.
Lögreglan í Köln hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki gripið strax til aðgerða og reynt að koma í veg fyrir umfjöllun um málið fyrstu dagana. Lögreglustjórinn var rekinn frá störfum nokkru síðan í þeirri von að friða almenning.
Alls hafa verið borin kennsl á 75 grunaða og 13 handteknir fyrir þjófnað og önnur minniháttar brot. Aðeins einn hefur verið handtekinn grunaður um kynferðislegt ofbeldi þessa nótt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert