Bað þá um að bora í höfuðið

Pauline Cafferkey á leið um borð í flugvél sem flutti …
Pauline Cafferkey á leið um borð í flugvél sem flutti hana London þar sem hún dvaldi á sjúkrahúsi. AFP

„Mér leið hræðilega – og ég sagði, ég get ekki haldið áfram. Leyfið mér að fara, ég er búin að fá nóg,“ sagði hjúkrunarfræðingurinn Pauline Cafferkey við starfsfólkið á sjúkrahúsinu þegar hún veiktist af ebólu. Munnur hennar var mjög bólginn og hún fann til í honum. Líkami hennar var einnig bólginn, hún var farin að sýna einkenni sem sjúklingar hennar í Síerra Leóne höfðu sýnt.

Cafferkey er reynslumikill hjúkrunarfræðingur. Hún hafði átján ára reynslu þegar hún bauðst til þess að fara til Síerra Leóne til að aðstoða þá sem veiktust af ebólu. Fjölskylda hennar var áhyggjufull en hún hélt samt sem áður af stað.

Enn í dag veit  Cafferkey ekki hvernig hún smitaðist af ebólu en ljóst er að hún var að veikjast þegar hún hélt aftur til Bretlands. Þegar hún lenti á Heathrow-flugvelli lét hún starfsfólk vallarins vita að hún væri með hita en athuganir var henni leyft að halda áfram til Glasgow. Sú ákvörðun er enn til rannsóknar hjá yfirvöldum.

Cafferkey komst á leiðarenda en skömmu síðar var hún komin með mikinn hita. Nokkrum mínútum eftir að hún hafði samband við sjúkrahúsið í Glasgow var sjúkrabíll kominn að dyrunum hjá henni.

Þegar henni var sagt að hún væri með ebólu fékk hún sig ekki til þess að segja fjölskyldu sinni fréttirnar. „Ég bað lækninn minn að segja þeim frá því þar sem ég gat það ekki. Ég hugsaði bara um að ég gæti dáið hræðilegum dauða eftir nokkra daga,“ segir hún.

Þremur vikum síðar byrjaði henni þó að batna og kom það á óvart. Bréf með batakveðjum streymdu inn og hjúkrunarfræðingar spítalans komu til hennar til að hvetja hana áfram.

Nokkrum mánuðum síðar var Cafferkey komin aftur til vinnu. Gleðin var þó heldur skammvinn þar sem hún veiktist aftur í október árið 2015, nú af heilahimnubólgu. Þetta var óþekkt ástand, ekki var vitað til þess að nokkur sem hafði lifað af ebólu hefði veikst aftur með þessum hætti.

„Þetta var verra þar sem bólgan var í heilanum. Þetta var bara hræðilegt. Ég sagði við einn læknanna, borið bara gat í höfuðið á mér til að létta á þrýstingnum. Ég grét þar til mig langaði að öskra,“ segir Cafferkey.

Frétt mbl.is: Ekki ebóla heldur heilahimnubólga

Aftur batnaði henni en núna hefur batinn komið hægar. Hún á stundum erfitt með gang og skammtímaminni hennar ekki gott. Hún finnur til í bakinu og er suð í eyrunum á henni. Hún veit aftur á móti að hún var afar nálægt því að bætast í hóp þeirra ellefu þúsund manns sem létu lífið úr ebólu.  

Pauline Cafferkey ræddi við blaðamann Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert