Ný ebólusmit í Kongó

Heilbrigðisstarfsfólk í Kongó stendur í ströngu og er að glíma …
Heilbrigðisstarfsfólk í Kongó stendur í ströngu og er að glíma við kórónuveirufaraldur og ebólufaraldur. AFP

Greint hefur verið frá nýrri hópsýkingu ebólu í norðurhluta Lýðveldisins Kongó. Fjórir hafa þegar látið lífið í borginni Mbandaka segir Eteni Longondo heilbrigðisráðherra landsins.

„Við munum senda þeim bóluefni og lyf mjög fljótlega. Þetta er svæði sem hefur áður gengið í gegnum þetta og þau vita hvernig á að bregðast við. Viðbragðsáætlanir hafa þegar verið virkjaðar,“ sagði Longondo á blaðamannafundi.

Mbandaka er höfuðborg Équateur-héraðs og er miðstöð vöruflutninga í þessum landshluta. Þar býr rúmlega ein milljón manna.

Hópsýking kom upp í Équateur-héraði í maí árið 2018 og var viðvarandi fram til júlí það ár. Þá létust 33 einstaklingar en 21 náði sér af sýkingunni.

Faraldurinn næstum því yfirstaðinn í apríl

Ebólufaraldurinn hefur dregið um 2.300 manns til dauða í landinu síðan í ágúst árið 2018 en yfirvöld þar í landi vonuðust til að geta lýst því yfir 25. júní að faraldinum væri lokið þar í landi.

Til að hægt sé að lýsa því formlega yfir að faraldri sé lokið þá mega ekki koma upp ný smit í 42 daga – sem er tvöfaldur meðgöngutími veirunnar.

Í apríl hafði ekkert smit greinst í 38 daga og margir farnir að vonast til að geta sett faraldurinn í baksýnispegilinn en á 39. degi greindist nýtt smit.

Kórónuveirufaraldurinn geisar einnig í landinu eins og annars staðar í heiminum og þar hafa 3.195 smit greinst og 72 hafa látið lífið samkvæmt opinberum tölum sem gefnar voru út í dag.

mbl.is