Ebólublaðamaður myrtur í Kongó

Næstversti ebólufaraldur í sögunni gengur nú yfir í Kongó og …
Næstversti ebólufaraldur í sögunni gengur nú yfir í Kongó og verður fólk sem vinnur gegn útbreiðslu sjúkdómsins gjarnan fyrir árásum. AFP

Kongóskur blaðamaður sem sérhæfir sig í vitundarvakningu um ebólufaraldurinn hefur verið myrtur á heimili sínu.

Samkvæmt her Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó réðst óþekktur hópur manna inn á heimili Papy Mumbere Mahamba í Lwebbma í norðausturhluta landsins, myrtu hann og særðu eiginkonu hans áður en þeir brenndu hús þeirra til grunna.

Næstversti ebólufaraldur í sögunni gengur nú yfir í Kongó og verður fólk sem vinnur gegn útbreiðslu sjúkdómsins gjarnan fyrir árásum, að því er segir í frétt BBC af málinu.

Þar segir jafnframt að morðið á Mahamba sé líklega komið til vegna tortryggni í garð sjúkdómsins og vantrausti á þeim sem vinna gegn honum. 

Ebólufaraldur braust út í Kongó í ágúst 2018 og af 3.000 sem hafa smitast eru 2.000 látnir, samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert