Fundu líkamsleifar eftir 15 ára leit

Peggy Knobloch hvarf fyrir 15 árum síðan, en líkamsleifar hennar …
Peggy Knobloch hvarf fyrir 15 árum síðan, en líkamsleifar hennar fundust á laugardag. AFP

Líkamsleifar níu ára gamallar stúlku sem hvarf árið 2001 fundust í Þýskalandi á laugardag. Sveppatínslumaður kom auga á bein í skóglendi á milli Nordhalben og Rodacherbrunn í Þýskalandi en DNA-próf hafa leitt í ljós að þau eru úr stúlkunni.

Peggy Knobloch skilaði sér ekki heim úr skólanum fyrir 15 árum og hófst þá mikil leit að henni. Hún sást síðast um 50 metrum frá heimili sínu, en samkvæmt frétt The Independent fundust beinin aðeins um níu metrum frá húsinu. Þá fundust fleiri hlutir á vettvangi sem talið er að hafi verið í eigu stúlkunnar.

Leitin teygði anga sína víða á sínum tíma og var m.a. leitað í Tyrklandi og Tékklandi. Voru á þeim tíma leiddar líkur að því að stúlkunni hefði verið rænt og hún myrt. Þá var maður handtekinn árið 2004 og ranglega dæmdur í fangelsi fyrir morðið á henni, en hann fékk dómnum snúið við tíu árum síðar.

Að sögn saksóknara á svæðinu er líklegt að villt dýr hafi grafið eftir beinunum og því hafi þau komið upp svo löngu eftir morðið. Rannsókn stendur nú yfir og vonast lögregla til að finna eitthvað á vettvanginum sem getur verið vísbending um það hver myrti stúlkuna.

Máli Knobloch hefur verið líkt við mál Madeleine McCann, bresku stúlkunnar sem hvarf í Portúgal árið 2007. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert