Rannsakar trúnaðarbrest vegna bókar

Bókin fylgdi með blaðinu Politiken á sunnudaginn.
Bókin fylgdi með blaðinu Politiken á sunnudaginn.

Danska leyniþjónustan hefur beðið lögregluna um að rannsaka fyrrverandi yfirmann stofnunarinnar fyrir að hafa brotið trúnað í bók sem fjallar um störf hans þar.

„Danska leyniþjþónustan (PET) telur að í bókinni, sem er að hluta til byggð á viðtölum við fyrrverandi yfirmann PET, Jakob Scharf, séu upplýsingar [...] sem ná yfir trúnaðarsamning hans,“ sagði í yfirlýsingu stofnunarinnar.

Scharf, sem var yfirmaður PET á árunum 2007 til 2013, hefur neitað því að hafa brotið trúnað og segist ekki hafa greint frá neinu sem hefur ekki áður komið fram opinberlega.

PET telur að útgefandinn Politiken hafi einnig mögulega brotið lög með því að gefa bókina út síðastliðinn sunnudag. Hún nefnist „Sjö ár fyrir PET – tími Jakobs Scharf“.

Lögbann á laugardaginn

Lögbann var sett á útgáfu bókarinnar snemma á laugardaginn, að beiðni PET, af ótta við að hún hefði að geyma leyndarmál. Við það spruttu upp ásakanir gagnvart stofnuninni um ritskoðun.

PET segir að útgefandi bókarinnar, höfundur hennar, dönsk útvarpsstöð sem ræddi innihald hennar og bókabúðir sem seldu hana hafi hugsanlega brotið lög.

PET óskaði í dag eftir því að lögbanninu yrði aflétt vegna þess að ekki væri ekki lengur hægt að fylgja því eftir.

Politiken greindi frá því að í bókinni væru ummæli um leyniþjónustur í Bandaríkjunum og Pakistan en Flemming Spidsboel Hansen, frá Rannsóknarstofnun alþjóðamála í Danmörku, sagði í samtali við blaðið að ólíklegt væri að ummælin myndu hafa áhrif á samstarf Dana við þessar stofnanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert