Fórnarlömbin „eins og hver önnur dýr“

Kirkjan í Charleston þar sem Dylann Roof drap níu svört …
Kirkjan í Charleston þar sem Dylann Roof drap níu svört sóknarbörn. AFP

Saksóknari í máli kynþáttahatarans Dylann Roof, sem skaut níu svört sóknarbörn til bana í Charleston í Suður-Karólínu í fyrra, sagði í lokaræðu sinni við réttahöld yfir honum að hann hafi litið á fórnarlömb sín „eins og hver önnur dýr“.

„Hann verður að bera ábyrgð á öllum gjörðum sínum. Þið eigið að dæma hann sekan fyrir alla ákæruliðina,“ sagði saksóknarinn Nathan Williams við kviðdóminn.

Í myndbandi sem var sýnt í réttarsalnum í síðustu viku sagði Roof við fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, að hann hafi framið ódæðið í „Mother Emanuel“-kirkjunni  í hefndarskyni vegna meintra glæpa sem svart fólk hefur framið gegn hvítu fólki.

„Hann tók þau af lífi vegna þess að hann trúði því að þau væru eins og hver önnur dýr,“ sagði Williams.

„Gjörðir hans í kirkjunni endurspegla vel hversu mikið hatur hans var.“

Joseph Hamski, fulltrúi FBI, sagði í réttarsalnum í gær að Roof hafi heimsótt kirkjuna sex sinnum áður en hann lét til skarar skríða. Hann hlóð einnig niður á tölvuna sína bók um samtökin Ku Klux Klan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert