Flýja vargöld í Nígeríu

AFP

Yfir 480 flóttamönnum var bjargað á Miðjarðarhafinu í gær þegar þeir reyndu að komast yfir hafið frá Norður-Afríku. Sjö lík hafa fundist, samkvæmt upplýsingum frá ítölsku strandgæslunni í morgun.

Alls var 484 flóttamönnum bjargað af gúmmíbátum í fjórum aðgerðum sem ítalska strandgæslan tók þátt í ásamt ítalska hernum og áhafnir skipa hjálparsamtaka. Lík sjömenninganna fundust við björgunaraðgerðirnar. 

Frá áramótum hefur yfir 45 þúsund manns verið bjargað á land í Ítalíu sem er 44% aukning frá sama tímabili í fyrra. 1.309 flóttamenn hafa drukkað á flóttanum, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðastofnuninni um fólksflutninga (IOM).

Flestir þeirra sem var bjargað í gær koma frá Nígeríu en auk þess voru flóttamenn frá Bangladess, Nýju-Gíneu og Fílabeinsströndinni. Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa ógnað öryggi íbúa í norðurhluta Nígeríu og er talið að 2,6 milljónir hafi þurft að flýja heimili sín vegna ofbeldis af hálfu samtakanna. Yfir 20 þúsund manns hafa verið drepin af vígasveitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert