Árásin í Melbourne í hnotskurn

Bílnum var ekið í gegnum mannfjöldann og stöðvaðist för hans …
Bílnum var ekið í gegnum mannfjöldann og stöðvaðist för hans ekki fyrr en hann hafnaði á stoppistöð fyrir sporvagna. AFP

Hvítum jeppa var ekið á miklum hraða yfir gatnamót á rauðu ljósi og inn í mannfjölda á einni fjölförnustu götu Melbourne í Ástralíu í dag. Árásin átti sér stað síðdegis að staðartíma þegar mikill fjöldi fólks var á ferð til og frá lestarstöð í nágrenninu.

Hér á eftir fara nokkur atriði sem fjölmiðlar hafa tekið saman um atburðarásina:

Bílnum var ekið á mannfjöldann á gatnamótum Flinders-strætis og Elizabeth-stræti klukkan 16.40 að staðartíma, um 5.40 að íslenskum tíma.

Lögreglan telur út frá þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir að um viljaverk hafi verið að ræða.

Að minnsta kosti fjórtán særðust, þar af barn á leikskólaaldri sem hlaut alvarlega höfuðáverka. Fleiri eru sagðir alvarlega meiddir. 

Tveir menn voru handteknir á staðnum. Báðir eru þeir taldir hafa verið í bílnum. Bílstjórinn hlaut meiðsli er hann ók bílnum á stoppistöð sporvagna þar för hans stöðvaðist loks. Lögregla kom fljótt á vettvang og á myndum og myndskeiðum má sjá hvar lögreglumenn drógu bílstjórann út úr bílnum.

Annar maður sást handtekinn á tröppum húss skammt frá. 

Sjónarvottar segja að mikill hávaði hafi heyrst, m.a. öskur er bílnum var ekið á mikilli ferð á fólkið. Einn þeirra segir að fólk hafi bókstaflega flogið um loftið eftir ákeyrsluna. „Við heyrðum hávaða og þegar við litum til vinstri sáum við þennan hvíta bíl að aka á alla sem urðu í vegi hans.“

Annar sjónarvottur sagði: „Hann hægði ekkert á sér.“ Mikið öngþveiti skapaðist en margir hlupu þó á vettvang til að aðstoða þá sem lágu sárir í götunni eftir árásina.

Atvikið átti sér stað í mesta verslunarhverfi borgarinnar. Margir voru þar í dag að kaupa jólagafir er bílnum var ekið á mannfjöldann. 

Þó að lögreglan segi að bílnum hafi verið ekið vísvitandi á fólk hefur hún ekki staðfest að um hryðjuverk hafi verið að ræða og segir að á þessu stigi séu engin augljós tengsl við hryðjuverkasamtök. Maðurinn sem ók bílnum er af afgönskum uppruna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert