Minnast hamfaranna fyrir 7 árum

AFP

Japanar minnast þess í dag að sjö ár eru liðin síðan mannskæður jarðskjálfti og öflug fljóðbylgja leiddu til kjarnorkuslyss í kjarnorkuverinu í Fukushima. Um 18.500 manns létust í hamförunum eða er enn saknað.

Jarðskjálftinn, sem átti upptök sín á hafsbotni tæpa 400 kílómetra norðaustur af Tókýó var 9 að stærð. Í kjölfarið fylgdi risaflóðbylgja sem varð meðal annars til þess að rafmagn fór af kjarnorkuverinu í Fukushima og kjarnaofnar bráðnuðu. Kælikerfi kjarnorkuversins virkaði ekki sem skyldi og kjarnorkuslysið sem varð er sagt það versta síðan Tjernóbyl 1986.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, leiddi í dag dapurlega minningarathöfn vegna hamfaranna, þar sem fórnarlambanna var minnst. Gestir athafnarinnar lutu höfði í þögulli bæn klukkan 14:46 að staðartíma, akkúrat á þeim tíma sem jarðskjálftinn reið yfir fyrir sjö árum.

AFP

Hideko Igarashi frá Fukushima, sem komst lífs af frá hamförunum, sagði í ræðu sinni við athöfnina að Japanar mættu aldrei gleyma því sem þeir lærðu af hamförunum.

Hin sjötuga Igarashi lenti í flóðbylgjunni ásamt eiginmanni sínum, skömmu eftir að þau hófu að undirbúa brottför af svæðinu eftir skjálftann. „Ég náði að grípa í grenitré en flóðbylgjan hreif mig á brott. Ég missti takið á eiginmanni mínum en heyrði hann kalla þrisvar á mig.“ Henni var síðar bjargað af viðbragðsaðilum sem komu á vettvang, en eiginmaður hennar lést.

Opinber tala látinna í hamförunum er 18.434, en talið er að minnsta kosti 3.600 manns til viðbótar hafi látist vegna eftirkasta þeirra. Vegna meiðsla, sjúkdóma og sjálfsvíga.

AFP

Þá eru enn 73 þúsund manns sem ekki hafa enn fengið að fara til síns heima á stóru svæði í kringum Fukushima, en þó er búið að aflétta banni á einhverjum stöðum. Yfirvöld hafa hvatt íbúa á þeim svæðum til að snúa aftur til síns heima en um helmingur þeirra sem yfirgáfu heimili sín í Namie og Tomioka vilja ekki snúa aftur.

Um 12 manns sem flúðu heimili sína af ótta við geislavirkni hafa höfðað mál á hendur á Tokyo Electric Power Company, stjórnanda kjarnorkuversins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert