Setti lögbann á opnun kjarnorkuvers í Japan

Almenningur í Japan hefur snúist gegn kjarnorku eftir Fukushima-slysið árið …
Almenningur í Japan hefur snúist gegn kjarnorku eftir Fukushima-slysið árið 2011. Var það stærsta kjarnorkuslys frá slysinu í Tsjerno­byl árið 1986. KAZUHIRO NOGI

Japanskur dómstóll setti í dag lögbann á að kjarnaofnar í kjarnorkuveri yrðu settir af stað vegna hættu á náttúruhamförum; jarðskjálftum og eldgosum. Slökkt var á öllum kjarnorkuverum í Japan eftir slysið sem varð í Fukushima-kjarnorkuverinu árið 2011 þegar flóðbylgja fór yfir eyjuna.

Almenningur í Japan hefur snúist gegn kjarnorku og kjarnorkuverum síðan þá og það þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, um að kjarnorka sé nauðsynleg til að knýja Japan, sem er þriðja stærsta hagkerfi í heimi.

Lægra settur dómur hafði komist að þeirri niðurstöðu í mars á síðasta ári að Ikata-kjarnorkuverið í vesturhluta Japans mætti hefja starfsemi að nýju en nú er ljóst að af því verður ekki nema lögbannið, sem hefur verið áfrýjað, verði fellt úr gildi.

Málahöldin hófust upprunalega vegna þess að íbúar í nágrenni kjarnorkuversins kvörtuðu yfir því að rekstraraðili kjarnorkuversins, Shikoku Electric Power, hefði ekki látið gera áhættumat vegna náttúruhamfara eins og eldgosa og jarðskjálfta.

„Það er jarðskjálftasvæði innan tveggja kílómetra frá kjarnorkuverinu en Shikoku Electric Power hefur ekki látið gera áhættugreiningu. Skýrsla eftirlitsstofnunar með kjarnorkuverum sem heimilaði gangsetningu kjarnorkuversins var gölluð og ekki nægilega vel gerð,“ sagði dómarinn Kazutake Mori.

mbl.is