Gabriel var kyrktur

Gabriel Cruz fannst látinn í bíl stjúpu sinnar í gærmorgun. ...
Gabriel Cruz fannst látinn í bíl stjúpu sinnar í gærmorgun. Hans hafði verið saknað frá 27. febrúar. AFP

Gabriel Cruz var kyrktur sama dag og hann hvarf. Þetta kemur fram í krufningarskýrslu sem spænskir fjölmiðlar og BBC hafa greint frá. 

Lík Gabriels Cruz, átta ára spænsks drengs, fannst í skotti bif­reiðar stjúpmóður Cruz í gær­morg­un en hans hafði verið saknað frá því 27. fe­brú­ar.

Ana Julia Quezada, stjúpmóðirin, greindi frá því 3. mars að hún hefði fundið stuttermabol í eigu Gabriels í um tíu kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem síðast sást til hans, í þorpinu Las Hortichuelas. Eftir það beindist grunur lögreglunnar að henni.

Lögreglan veitti henni eftirför í gær að sumarhúsi ömmu Gabriels þar sem hún sótti líkið í brunn og setti í skottið á bíl sín­um. Lög­regl­an hand­tók Quezada fyr­ir utan íbúð henn­ar.

Quezada hefur áður verið grunuð um að hafa átt aðild að dauða barns, en árið 1996 var hún grunuð um að eiga þátt í því þegar dóttir hennar féll út um glugga á fjölbýlishúsi.

Móðir Gabriels, Patricia Ramirez, sagði í útvarpsviðtali í dag að hana hefði alltaf grunað að Quezada tengdist hvarfi sonar síns. Hún hvatti fólk hins vegar til að hætta að tjá reiði sína gagnvart Quezada á samfélagsmiðlum.  

mbl.is