Skutu niður flaugar húta

Íbúi í Um Al-Hammam hverfinu í Riyadh í Sádi-Arabíu bendir …
Íbúi í Um Al-Hammam hverfinu í Riyadh í Sádi-Arabíu bendir hér á gat í þaki húss síns sem myndaðist er brot úr einni eldflauganna lenti á húsinu. AFP

Sádi-arabíski herinn skaut, að eigin sögn, í gær niður sjö eldflaugar yfir landinu. Segir herinn uppreisnarmenn á yfirráðasvæðum húta í Jemen standa að baki árásunum.

BBC hefur eftir yfirvöldum í Sádi-Arabíu að þremur flauganna hafi verið beint gegn höfuðborginni Riyadh og að einn hafi farist þegar að brot úr einni flauganna lentu í einu úthverfa borgarinnar.

Þrjú ár voru í gær liðin frá því að borgarstríðið í Jemen hófst.

Uppreisnarmenn húta segja flaugum sínum hafa verið beint að fjölda staða m.a. alþjóðaflugvellinum í Riyadh. Útlagastjórn Jemen, sem nýtur stuðnings stjórnvalda í Sádi-Arabíu, sakar Írani um að selja hútum vopn en þeirri fullyrðingu hafna írönsk stjórnvöld.

Talsmaður útlagastjórnarinnar og bandamanna þeirra segir árásirnar í gær hins vegar sanna að hútar njóti stuðnings Írans og að það sé alvarlegur stígandi í átökunum þegar farið sé að skjóta fjölda eldflauga að borgum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert