ESB og BNA felli niður alla tolla

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Cecilia Malmström, viðskiptastjóri bandalagsins, eru í Washington og munu þau funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta síðar í dag. Umræðuefni fundanna er viðskiptasamband svæðanna. 

Trump lýsti því yfir á Twitter í gær að hann væri reiðubúinn til að fella niður alla tolla, viðskiptahindranir og ríkisstyrki á varning ef Evrópusambandið gerði slíkt hið sama. Hann sagðist vonast til þess að samkomulag næðist um það, en að hann eigi þó ekki von á því.

Forsetinn hefur um hríð sagt Evrópusambandið koma illa fram við Bandaríkin þegar kemur að viðskiptum og að sambandið hafi notfært sér Bandaríkin í áraraðir.

Ljóst er að ríkisstjórnir um alla Evrópu munu fylgjast grannt með niðurstöðum fundarins, ekki síst í Berlín en þar standa vonir til að forsetarnir nái að semja um að fallið verði frá hugmyndum um sérstakan toll á bílainnflutning frá Evrópusambandinu inn í Bandaríkin og hafa prósentur á bilinu 20 til 35 verið nefndar.

Donald Trump hefur sagt Emmanuel Macron Frakklandsforseta að of margir þýskir bílar séu í Bandaríkjunum. 1,35 milljónir þýskra bíla voru seldir í Bandaríkjunum á síðasta ári, en aðeins 494.000 þeirra voru fluttir inn beint frá Þýskalandi og er það samdráttur um 25% frá árinu 2013.

Viðskiptasamband ESB og Bandaríkjanna verður einkum til umræðu á fundi …
Viðskiptasamband ESB og Bandaríkjanna verður einkum til umræðu á fundi forsetanna í dag. AFP

Báðir óhefðbundnir

Þetta er í fyrsta sinn sem Juncker og Trump funda í einrúmi en þeir hafa þó áður hist, til að mynda á fundum G7-ríkjanna. Isaac Boltansky, stjórnmálaskýrandi hjá Policy Research, segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að ákvörðunin um að senda Juncker til fundarins frekar en fulltrúa aðildarríkja sé snjöll.

Juncker sé ekki „þurr og tilgerðarlegur diplómati“ heldur hafi hann möguleika á að tengjast Bandaríkjaforseta á persónulegan hátt, ólíkt því sem gildi um samband Trump við flesta leiðtoga Evrópu. „Það er óvíst hvernig þeim mun koma saman,“ segir hann en bætir við að svo fremi sem forsetarnir mæti með virðingu og vilja til samninga geti fundurinn verið árangursríkur.

Undir það tekur Terry Haines, sérfræðingur í bandarískri stjórnsýslu. „Þeir [Bandaríkjamenn] vilja ekki bara samninga. Þeir vilja þá fyrr heldur en síðar. Þetta er ekki forseti sem vill eyða árum í að komast að samkomulagi. Þeir vilja sjá niðurstöður á næstu mánuðum.“

Í gær fundaði sendinefnd Evrópusambandsins með Paul Ryan, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna og Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrata á þingi.


 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert