Hernaðarlega mikilvægt fyrir Rússa

Sergei Kislyak, fyrrverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.
Sergei Kislyak, fyrrverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Arctic Circle

Hugmyndir um herlausar norðurslóðir kalla á skilgreiningu á því hvaða svæði sé um að ræða. Stór hluti þess svæðis sem kallað er norðurslóðir í víðum skilningi hugtaksins er innan yfirráðasvæðis Rússlands og herleysi þar kæmi niður á öryggi landsins.

Þetta segir Sergei Kislyak, öldungadeildarþingmaður á rússneska þinginu og fyrrverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is, en hann flutti ræðu á ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpu í Reykjavík í gærmorgun um norðurslóðastefnu Rússa.

Fyrir Rússland eru norðurslóðir mjög mikilvægar efnahagslega að sögn Kislyaks. Þar verði rúm 11% af landsframleiðslu landsins til og rúm 22% af útflutningsvörum þess komi þaðan. Norðurslóðir séu í raun fjársjóðskista náttúruauðlinda sem hægt sé að nýta.

Því til viðbótar sé um að ræða mjög mikilvæga samgönguleið fyrir Rússland. Siglingaleiðin norður fyrir Rússland hafi alltaf verið mikilvæg fyrir Rússa til þess að flytja fólk og varning til staða á norðurströnd landsins sem annars hafi ekki verið hægt að komast til.

Stór hluti Rússlands innan Norðurslóða

Svæðið sé einnig hernaðarlega mikilvægt enda gríðarlega stórt rússneskt landssvæði sem þurfi að verja. Rússar leggi áherslu á að ekki komi til átaka á svæðinu líkt og ekki hafi gerst jafnvel þegar mest spenna hafi verið í samskiptum Rússlands og vesturveldanna.

„Við viljum að þannig verði það áfram,“ segir Kislyaks. Rússar vilji eðlilegt, alþjóðlegt og siðmenntað samstarf um þróun norðurslóða. Spurður um hugmyndir um herlausar norðurslóðir segir Kislyak að þar skipti máli skilgreining norðurslóða máli.

„Það fer mjög eftir því hvað við erum að tala um. Miðbik Norðuríshafsins er eitt en það er herlaust. Ef við erum að tala um landssvæði sem tilheyra til dæmis Rússlandi eða Bandaríkjunum þá er það talsvert annað. Skilgreina þurfi fyrst umrætt svæði.

Með því að verða við kröfu um að stór hluti af ekki aðeins rússnesku hafssvæði heldur einnig landssvæði væri herlaus væri verið að stefna öryggi Rússlands í hættu. Það væri eðli málsins samkvæmt eitthvað sem væri fyrir vikið afskaplega erfitt að samþykkja.

Spurður um siglingaleiðina norður fyrir Rússland segir Kislyak rússnesk stjórnvöld horfa jákvæðum augum á aukna notkun hennar enda hægt með því að stytta verulega siglingatímann frá Asíu til Evrópu. Samstarf í þeim efnum sé af því góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert