Aðeins 10.000 atkvæði skildi að í Flórída

Repúblikaninn Rick Scott tekur sæti í öldungardeild Bandaríkjaþings fyrir Flórída.
Repúblikaninn Rick Scott tekur sæti í öldungardeild Bandaríkjaþings fyrir Flórída. AFP

Repúblikaninn Rick Scott vann sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Flórída með aðeins 10 þúsund atkvæða mun. Þetta varð ljóst í dag eftir að handtelja þurfti öll atkvæði í ríkinu að nýju eftir þingkosningarnar í byrjun mánaðarins.

Scott hafði átt í harðri baráttu við Demókratann Bill Nelson, en Nelson hafði setið í öldungadeildinni í þrjú kjörtímabil. Fékk Scott 50,05% atkvæða og Nelson 49,93% samkvæmt lokatalningu. Aðeins munaði því 0,12 prósentustigum á þeim tveimur.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hrósaði Scott eftir að sigurinn var ljós og sagði í færslu á Twitter að Scott hefði verið góður ríkisstjóri og að hann yrði betri öldungadeildarþingmaður.

Í gær kom í ljós að Repúblikaninn Ron DeSantis hafði hlotið kosningu sem ríkisstjóri Flórída eftir að hafa sigrað Demókratann Andrew Gillum. Þurfti einnig að handtelja atkvæðin í þeirri kosningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert