Skotárás í Strassborg

Franskur lögreglumaður á jólamarkaði í Strassborg í síðasta mánuði.
Franskur lögreglumaður á jólamarkaði í Strassborg í síðasta mánuði. AFP

Að minnsta kosti einn er látinn og sex særðir eftir skotárás í Strassborg í Frakklandi. Að sögn lögreglu er árásarmaðurinn á flótta.

Borin hafa verið kennsl á árásarmanninn og er hans nú leitað af lögreglunni.

Nokkrum skotum var hleypt af í miðborg Strassborgar, skammt frá jólamarkaðnum, samkvæmt BBC.

Innanríkisráðuneyti Frakklands hefur hvatt almenning í Strassborg til að halda sig innandyra vegna atviksins.  

„Skotárás í miðborg Strassborgar. Takk fyrir að halda ykkur heima þangað til meira er vitað um ástandið,“ skrifaði aðstoðarborgarstjóri borgarinnar á Twitter.

Utanríkisráðuneytið bendir Íslendingum á svæðinu á að láta vini og ættingja vita af sér í gegnum síma og samfélagsmiðla. Þeir Íslendingar sem utanríkisráðuneytið veit af á svæðinu eru heilir á húfi að sögn Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

Þurfi fólk á aðstoð að halda er því bent á að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Mynd úr safni frá jólamarkaði á Place Kleber-torgi í Strassborg.
Mynd úr safni frá jólamarkaði á Place Kleber-torgi í Strassborg. AFP
mbl.is