11 ár fyrir skotárás í Ósló

Mynd sem vegfarandi tók á vettvangi við Blå aðfaranótt 9. …
Mynd sem vegfarandi tók á vettvangi við Blå aðfaranótt 9. júlí 2017. Maðurinn hlaut í gær 11 ára varðveisludóm (n. forvaring). Ljósmynd/Ábendinganetfang Dagbladet

Mikil skelfing greip um sig á skemmtistaðnum Blå í Grünerløkka-hverfinu í Ósló aðfaranótt sunnudagsins 9. júlí 2017 þegar 25 ára gamall maður dró þar upp 45 kalíbera hálfsjálfvirka skammbyssu af gerðinni Norinco NP30 og hóf skothríð fyrir utan, innan um fjölda gesta staðarins. Skaut hann alls að sjö manns og hlutu fjórir þeirra skotsár en allir lifðu þó af, í einu tilfelli skildi það þó milli feigs og ófeigs að fórnarlambið komst skjótt undir læknishendur.

Árás­armaður­inn, sem var und­ir áhrif­um áfeng­is og fíkni­efna og hef­ur meint tengsl við sam­fé­lag norskra nýnas­ista, var hand­tek­inn og 8. júní í fyrra var honum birt ákæra þar sem honum voru gefnar að sök sjö tilraunir til manndráps.

Dómur féll í þessu máli í gær og var það niðurstaða héraðsdóms að maðurinn skyldi sæta ellefu ára varðveislu (n. forvaring) sem er réttarúrræði þar sem ákveðinn lágmarksárafjöldi er afplánaður en hægt að framlengja fangelsisdvöl þyki dómara, að sérfræðinga yfirsýn, ekki óhætt að hleypa brotamanninum út í samfélagið á ný. Hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik hlaut sams konar dóm þar sem varðveislan var til 21 árs en lágmarkstíminn ákveðinn tíu ár.

Áður dæmdur fyrir hnífstungu

Sá sem dæmdur var í gær á sér einnig sögu um að hafa stungið ann­an mann við Blitz-húsið, þekkt at­hvarf pönk­ara í Ósló, skallað lög­regluþjón og hótað fanga­vörðum sín­um líf­láti í mars 2016 þegar hann afplánaði dóm í Telemark-fang­els­inu í Skien og fanga­vörður bað hann vin­sam­leg­ast um að hafa sig inn í fang­elsið af úti­vist­ar­svæðinu. Því svaraði fang­inn: „Heig­ulstík­in þín, þú veist ekki hver ég er. Ég skal finna þig þegar ég slepp út eft­ir þrjá mánuði.“

Við rekstur málsins sagðist hann iðrast gjörða sinna mjög og hefði málið allt tekið mikinn toll af andlegu atgervi hans. Ástæða hans fyrir skotárásinni var að dyraverðir neituðu að hleypa honum inn á staðinn. Auk fangelsisdómsins var sakborningurinn dæmdur til að greiða fórnarlömbum sínum samtals tæpar 600.000 krónur (8,5 milljónir íslenskar) í skaðabætur.

Dagbladet

NRK

VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert