Tekur hálft ár að bera kennsl á líkin

Tæknimenn að störfum á vettvangi slyssins.
Tæknimenn að störfum á vettvangi slyssins. AFP

Það mun taka allt að sex mánuði að bera kennsl á líkamsleifar þeirra 157 sem fórust þegar Boeing 737 Max 8-þota Ethiopian Airlines hrapaði rétt eftir flugtak í Addis Ababa á sunnudagsmorgun.

Þotan sveigði til, tók dýfur og hrapaði skömmu eftir flugtak en hún var á leið frá höfuðborg Eþíópíu til Nairobi, höfuðborgar Kenía. Max 8-þotur hafa verið kyrrsettar um allan heim eftir slysið.

Vitni segja að vélin hafi hrapað með framhlutan á undan á akurlendi suðaustur af Addis Ababa. Stór hluti vélarinnar grófst ofan í jörðina en einungis mátti sjá brak á víð og dreif á akurlendinu. Fólk frá 35 löndum fórst í slysinu.

Fram kemur í bréfi sem Ethiopian Airlines sendi ættingjum þeirra sem voru á farþegalista í fluginu að það geti tekið fimm til sex mánuði að bera kennsl á líkamsleifar hinna látnu. 

Ættingi eins þeirra sem lést sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að samkvæmt trú hans væri ekki hægt að halda jarðarför án líkamsleifa. Sex mánaða bið gæti verið erfið fyrir fjölskylduna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert