Útganga væntanlega án samnings

Allar líkur eru á að Bretar gangi úr Evrópusambandinu samningslausir, segir aðalsamningamaður ESB, Michel Barnier. Hann segir að ekki sé hægt að útiloka að samningur náist.

Í gærkvöldi greiddu þingmenn á breska þinginu atkvæði gegn fjórum tillögum um mögulega útgöngu Breta.

Michel Barnier segir að ef seinka eigi útgöngu Breta, sem er fyrirhuguð 12. apríl, yrðu að vera verulegar breytingar á ef ESB ætti að samþykkja frestun. Forsætisráðherra Breta, Theresa May, hefur boðað ríkisstjórnina á fund þar sem reynt verður til þrautar að komast að samkomulagi um næstu skref.

Barnier varar við því að eftir því sem dagarnir líða án samkomulags aukist líkurnar á Brexit í næstu viku án samkomulags. Hann segir að samningslaus útganga sé ekki eitthvað sem ESB hafi óskað en nú sé svo komið að ESB-ríkin 27 séu undir það búin að svo fari. 

„Við skulum ekki gleyma því að við erum þegar með samkomulag. Við erum með samning og þetta var samþykkt af Theresu May og bresku ríkisstjórninni, leiðtogaráði ESB og Evrópuþinginu 25. nóvember á síðasta ári, fyrir fjórum mánuðum síðan,“ segir Barnier. 

Hann segir að reynt hafi verið að tryggja það að Bretar gætu yfirgefið ESB 29. mars líkt og Bretar höfðu sjálfir ákveðið. Ef Bretar vilji enn yfirgefa ESB á skipulagðan hátt þá er þetta samkomulag, þessi samningur sá sem gildir. 

Barnier varar við því að ef May nær ekki samningnum í gegnum þingið þá eru aðeins tveir kostir í stöðunni: Brexit án samkomulags eða ósk um að lengja frestinn fyrir virkjun greinar 50. Ekki sé hins vegar víst að ríkin 27 samþykki að gefa Bretum enn lengri frest en leiðtogar ríkja ESB munu hittast á fundi 10. apríl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert