Yfir 100 handteknir í loftslagsmótmælum

Mótmælendur slógu upp tjaldbúðum í miðborg Lundúna í nótt.
Mótmælendur slógu upp tjaldbúðum í miðborg Lundúna í nótt. AFP

Yfir 100 manns voru handteknir í loftslagsmótmælum sem enn standa yfir í London. Hlutar borgarinnar eru lamaðir vegna mótmælanna, að sögn lögreglu. Mótmælendur hófu að hindra aðgengi að brúm og götum í gær en til sambærilegra aðgerða hefur verið gripið víðar í Evrópu.

Að mótmælunum stendur hópur sem kallar sig Uppreisn gegn útrýmingu (Extinction Rebellion) sem var stofnaður í Bretlandi í fyrra af menntafólki og nýtur sívaxandi fylgis.

Lundúnalögreglan sagði í morgun að 113 hefðu verið handteknir. Þrír voru handteknir við skrifstofu olíurisans Royal Dutch Shell. Mótmælendur brutu m.a. rúður í byggingunni.

Meirihlutinn var handtekinn fyrir að hindra og tefja umferð um götur og brýr. Yfir þúsund manns höfðu komið sér fyrir við Waterloo-brúna og komu m.a. trjám í blómapottum fyrir á götunni. Einnig slógu mótmælendur upp tjaldbúðum í Hyde Park til að undirbúa frekari mótmæli sem fyrirhuguð eru næstu daga. 

Lögreglan krefst þess að mótmælendur haldi sig á ákveðnum svæðum á gatnamótunum við Hyde Park og Oxford-stræti. Segir talsmaður hennar það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir „alvarlegar truflanir“.

Þúsundir tóku þátt í mótmælunum í London í nótt og …
Þúsundir tóku þátt í mótmælunum í London í nótt og verður þeim áframhaldið í dag og næstu daga. AFP

Mótmælendur krefjast þess að stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála og áhrifa þeirra á vistkerfi, að þau dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda og komi í veg fyrir frekari eyðileggingu vistkerfa. 

Talsmaður hópsins, James Fox, segir að mótmælendur hafi komið sér fyrir á fjórum stöðum í miðborg Lundúna í nótt. Í kjölfarið hafi lögreglan komið á vettvang og farið fram á að hópurinn héldi sig á ákveðnu svæði. Hann segir að mótmælendur hafi fest sig við bíla með hjólalásum. „Við munum ekki fara fyrr en ríkisstjórnin hlustar á okkur. Mörg okkar eru tilbúin að fórna frelsi okkar fyrir málstaðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert