Systur takast á um dauðarefsingu

AFP

Aleesha DeKnikker var að kaupa í matinn og með símann stilltan á þögn þegar skilaboð frá móður hennar, Carol Simon, bárust, þar sem hún lýsir því fyrir dóttur sinni hversu veikur bróðir hennar er og hún viti hreinlega ekki hvað sé til ráða. 

Sex vikum síðar, í nóvember 2016, fannst Simon látin ásamt sjö ára gömlum dóttursyni, Brayden Otto. Sonur Simon, Heath Otto, sem er 26 ára gamall, játaði við yfirheyrslur hjá lögreglu í Sioux Falls, Suður-Dakota, að hafa reynt að kyrkja móður sína og frænda með símasnúru og síðan skorið þau á háls.

Ekki löngu síðar var Otto úrskurðaður ósakhæfur og vistaður á sjúkrahús. Læknar sem verjendur hans réðu greindu hann með geðklofa. Um leið og heilsa Otto batnar verða réttarhöld í málinu og ríkissaksóknari í Minnehaha-sýslu, Aaron McGowan, hefur tjáð DeKnikker að bróðir hennar eigi yfir höfði sér dauðarefsingu nema ákæruvaldið samþykki að hann verði vistaður á sjúkrahúsi til frambúðar í stað þess að vera vistaður í fangelsi. 

Fréttavefurinn Marshall Project fjallaði nýverið um málið en það hefur vakið talsverða athygli vestanhafs ekki síst vegna umræðunnar um dauðarefsingar. Rætt er um að banna dauðarefsingar yfir fólki sem er með alvarlega geðsjúkdóma. 

Otto var náinn móður sinni á uppvaxtarárunum en fór að fikta við fíkniefni og lyf á unglingsárum. Rúmlega tvítugur var hann rekinn úr hernum fyrir steranotkun og um svipað leyti fór að bera á ofsóknaræði hjá honum. En það var eitthvað sem fáir gerðu sér grein fyrir nema þeir þekktu hann mjög vel, segir vinkona Simon, Maddie Borah.

Borah segir að Otto hafi verið að læra rafvirkjun en vegna veikindanna hafi hann verið sannfærður um að einhverjir væru að snuðra í verkfæratöskunni hans. Hann drakk of mikið og móðir hans fékk hann til þess að fara í meðferð en hún hafi vitað sem var að meira amaði að en fíkn án þess að hann hafi verið greindur með geðrofssjúkdóm. 

Simon og DeKnikker, móðir og systir Ottos, eru báðar hjúkrunarfræðingar og í janúar 2016 höfðu þær báðar gert sér grein fyrir því að hann væri með geðklofa enda voru ranghugmyndir hans enn meiri en áður og hann einangraði sig sífellt meira frá öðru fólki.

DeKnikker segir að hún hafi vitað að hann þyrfti verulega á aðstoð að halda en hana hafi aldrei grunað að hann yrði ofbeldishneigður. Otto var aldrei formlega greindur með geðklofa á þessum tíma. Í tvígang var hann handtekinn árið 2016.

Í maí var hann handtekinn í banka þar sem hann harðneitaði að yfirgefa bankann og sagði að hann væri að sækja um starf hjá leyniþjónustunni. Í september setti hann öryggiskerfið á heimili móður sinnar af stað í þeirri von að geta sótt um starf hjá CIA þegar leyniþjónustumenn myndu koma á heimilið.

Simon reyndi að fá son sinn lagðan inn á geðdeild en lög Suður-Dakóta krefjast þess að til þess að fá einhvern nauðugnarvistaðan þurfi að stafa ógn af viðkomandi. Otto leitaði aldrei til geðlæknis, né sálfræðinga þrátt fyrir veikindin.

DeKnikker bauðst til þess að greiða fyrir slíka meðferð fyrir hann en Otto sagði að það myndi kosta háar fjárhæðir að þagga niður í röddunum sem voru inni í höfði hans. Að lokum samþykkti hann að leita sér læknis en þegar kom að innlögn neitaði hann. Þar sem hann hótaði ekki að skaða sjálfan sig var hann ekki nauðungarvistaður. 

Þetta var á þriðjudegi í nóvember. Sunnudaginn á eftir skildi systir hans, Cassandra Otto, son sinn, Brayden, eftir hjá móður þeirra. Þegar hún hringdi til að kanna með þau heyrði hún á rödd Ottos að eitthvað skelfilegt hafði gerst. Hún flýtti sér heim til móður þeirra en þegar hún kom þangað var lögreglan þegar á vettvangi því Otto hafði sett öryggiskerfi hússins af stað. Þegar lögreglan spurði hann hvort einhver þyrfti á læknishjálp að halda svaraði Otto: Ekki lengur.

Otto var með ýmsar ranghugmyndir og hélt því fram að hann hafi verið að bjarga móður sinni og frænda frá vanlíðan sem hrjáði þau vegna veikinda þeirra sem og að CIA hefði fyrirskipað honum að drepa þau. Eins að Hillary Clinton hafi átt hlut að máli og ef hann hefði ekki drepið þau þá hefði þriðja heimstyrjöldin brotist út. 

Aaron McGowan, ríkissaksóknari í Suður-Dakota, hefur ekki greint frá því formlega að hann muni fara fram á dauðarefsingu en talið er líklegt að svo verði. Systir Otto, DeKnikker, hefur sent McGowan beiðni um að lífi bróður hennar verði þyrmt enda muni ekki morð á fleirum í fjölskyldunni heiðra minningu móður hennar. Né heldur vera í samræmi við hennar skoðanir. 

En Cassandra Otto, móðir Brayden, vill að bróðir hennar verði tekinn af lífi fyrir að hafa drepið son hennar. Hún segist ekki vita hvort Otto sé að gera sér upp veikindi eða sé raunverulega veikur á geði.

„Ég tel að það eigi að dæma hann til dauða því fjölskylda mín verðskuldar ekki það sem gerðist fyrir okkur. Systir mín er mér ósammála því þetta er ekki barnið hennar,“ segir Cassandra Otto.

Hún segist telja að bróðir hennar hafi vitað hvað hann hafi verið að gera og máli sínu til stuðnings segir hún að eftir að hafa mistekist að drepa móður þeirra og Brayden með því að kyrkja þau, hafi hann sótt hníf og skorið þau á háls. 

Fyrr á árinu hafnaði löggjafarþing Suður-Dakota frumvarpi til laga um að banna dauðarefsingar yfir fólki sem er með alvarlega geðsjúkdóma. Aftur á móti samþykkti þing Virginu-ríkis slík lög fyrr á árinu og slík frumvörp liggja fyrir löggjafarþingum Texas, Ohio, Tennessee og Missouri. 

Á fræðsluvef Geðhjálpar segir svo um geðklofa

Geðklofi (schizophrenia) hefur ekki einfalda greiningu heldur samanstendur hún af hegðun og einkennum sem hafa verið til staðar meirihluta eins mánaðar, jafnhliða því að ákveðnir þættir hafa verið til staðar í allt að sex mánuði. Hér er aðallega verið að vísa í skerðingu á félagslegum og starfstengdum þáttum.

Einkenni geðklofa ná til fjölda tilfinningalegra og hugrænna þátta þ.m.t. skynjunar, afleiðuhugsunar, tungumáls, samskipta, hegðunarstjórnunar, og talmáls, flæði og sköpun hugsunar, ákvarðanatöku, virkni og eftirtektar. Greining tekur mið af heildarmynd á ástandi einstaklings auk viðmiða um hve hamlandi einkennin sem fram koma eru hvað varðar félagstengsl og atvinnumöguleika.

Á breiðum grunni er hægt að líta svo á að einkenni geðklofa liggi á tveim sviðum, vexti og samdrætti. Vöxturinn felur í sér aukningu eða jafnvel ýktri eðlilegri hæfni á meðan samdrátturinn felur í sér að minnkun eða jafnvel brottfall eðlilegrar hæfni.

Vaxtareinkenni geta falið í sér brenglun í innihaldi hugsana (ranghugmyndir), skynjunar (ofskynjanir), talmáli og hugsunarferli (óskipulegt tal). Þessum vaxtareinkennum er síðan skipt upp í tvo hópa, sem líklegt er að stafi af mismunandi ástæðum. Annars vegar er um að ræða sýkióska vídd sem innibera ofskynjanir og ranghugmyndir. Hins vegar er um að ræða óskipulega vídd sem stuðlar að óskipulegri hegðun og tali.

Samdráttareinkennin innibera hömlur í vídd og dýpt tilfinningarlegra tengsla (affective flattening), í flæði og myndun orða og hugsana (alogia) og framkvæmd, skipulagningu og hegðun sem hefur markmið (avoliation).

Í ljósi þess hve birtingarmynd geðklofa er margþætt og mismunandi eftir einstaklingum er hægt að líta á geðklofa sem sjúkdómsheilkenni, sem þýðir að einkennin eru margvísleg og einstaklingsbundin. Dæmigerð einkenni geðklofa geta komið fram í öðrum geröskunum, svo sem eins og ranghugmyndum í oflætiskasti geðhvarfa sjúklings og erfiðleikum með tilfinningatengsl þess sem er þjakaður af þunglyndi.
Helstu einkenni geðklofa eru:

 • Ranghugmyndir, ofskynjanir og óskipulegt tal
 • Tilfinningaleg flatneskja, sést oft á litlum svipbrigðum
 • Málfar verður hikstandi og óskipulagt
 • Ósamhæfni hreyfinga, stífni í hreyfingum og jafnvel stjarfi
 • Hreyfingar stuðla ekki að því að einstaklingur framkvæmi það sem hann ætlaði eða átti að gera
 • Fælni og ofsahræðsla gagnvart umhverfinu
 • Félagsleg einangrun og lítil tengsl
 • Minnkuð virkni, hægagangur og áhugaleysi
 • Einbeitingarleysi
 • Viðvarandi kvíði
 • Þunglyndi
 • Sjálfsvígsatferli
 • Líkamleg vanhirða
 • Hreinlæti bæði líkamlegu og nánasta umhverfi verður verulega ábótavant

Hafa ber í huga að við greiningu á geðklofa þá hefur alvarleiki hegðunar eða hugrofsins veruleg áhrif á greiningu, þar sem t.a.m. það getur nægt að einstaklingur fái alvarlegar ofskynjanir (sem eru ekki tilkomnar vegna neyslu (eiturlyfja) til að vera greindur með geðklofa.

Sjúkdómurinn hefst að meðaltali rétt eftir tvítugt hjá körlum og rétt fyrir þrítugt hjá konum. Stundum hefst sjúkdómurinn með látum, alvarlegu kasti, en í flestum tilfellum er aðdragandi að fyrsta kastinu til staðar. Þetta sést oft ef litið er til baka. Einkenni eins og það að draga úr félagslegu samneyti, missa áhuga á skóla eða vinnu, minnkað hreinlæti, óvenjuleg hegðun og reiðiköst, geta verið mælistikur á þróun sjúkdómsins. Það er þó oft ekki fyrr en virkir þættir koma fram í hegðun einstaklingsins að hægt er að festa fingur á að viðkomandi sé með geðklofa.
Á Íslandi er talið að um 1% landsmanna sé með geðklofa. Því miður er geðklofi kannski sú geðröskun / geðfötlun sem helst verður fyrir neikvæðum viðbrögðum í samfélaginu. Hinar ýktu birtingarmyndir geðklofa verða frekar fyrir umræðu og aðkasti en nokkur önnur hegðunarfrávik. Almenningur virðist oft halda að fólk með geðklofa sé ofbeldishneigt, en rannsóknir sýna að tíðni slíkrar hegðunar er ekki meiri heldur en gengur og gerist á meðal almennings. Hins vegar er einstaklingum sem þjást af geðklofa hættara við sjálfsvígi og þó sérstaklega ungum karlmönnum, en almennt gerist.

Á undanförnum árum hefur náðst verulegur árangur í meðferð fyrir einstaklinga með geðklofa. Meðferð stuðlar að bættum lífsgæðum til handa einstaklingum með geðklofa. Hún miðar oft að því að ná tökum á einkennum sjúkdómsins auk þess sem mikið kapp er lagt á að viðhalda tengslaneti við aðstandendur og vini.

mbl.is
Húsnæði óskast í sumar í Hafnarfirði.
Húsnæði óskast frá 15/06-15/09, í 221 Hafnarfjarði, 3-4 svefnherbergi. Helst með...
Kantsteins og múrviðgerðir
Vertíðin hafin hafið samband í símum 551 4000. 6908000 á verktak@verktak.is e...
Jessenius Faculty
Jessenius Faculty of Medicine í Martin Slóvakíu heldur inntökupróf í læknisfræði...