Trump hitti „hvalaprinsinn“

Trump ásamt Karli Bretaprins og Elísabetu Englandsdrottningu.
Trump ásamt Karli Bretaprins og Elísabetu Englandsdrottningu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti olli öldugangi Twitter í dag þegar hann kallaði Karl Bretaprins „hvalaprinsinn“ (e. Prince of Whales), en stafnum h er þar ofaukið í titli prinsins af Wales. Bandaríkjaforseti hefur síðan leiðrétt færsluna.

Greint er frá málinu hjá BBC en þar segir að færsla forsetans hafi verið viðbrögð við fréttum af því að hann hefði sagst myndu þiggja upplýsingar frá erlendum ríkjum um keppinaut hans í komandi forsetakosningum Bandaríkjanna 2020.

Upprunaleg færsla Bandaríkjaforseta, sem nú hefur verið leiðrétt.
Upprunaleg færsla Bandaríkjaforseta, sem nú hefur verið leiðrétt. Skjáskot/Twitter

„Ég hitti og ræði við ‚erlend stjórnvöld‘ alla daga,“ skrifaði Trump í færslu sinni og taldi þar meðal annars upp nýlegan fund sinn með Elísabetu Englandsdrottningu, forsætisráðherra Bretlands, Frakklandsforseta, forseta Póllands, jú og hvalaprinsinn.

„Við töluðum um ‚allt‘! Á ég strax að hringja í FBI vegna þessara símtala og funda? Hversu fáránlegt! Mér yrði aldrei treyst aftur. Að því sögðu þá eru svör mín oftast tekin úr samhengi af miðlum falskra frétta. Þeir sleppa vísvitandi því sem máli skiptir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert