Hótaði ljósmyndara Time fangelsisvist

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði ljósmyndara Time-tímaritsins fangelsisvist fyrir að því er virðist taka ljósmynd af bréfi frá Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Ávítaði Trump ljósmyndarann á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu eftir að starfsmaður hafði varað hann við því að taka ljósmynd eftir því sem fram kemur á BBC.

Viðtalið hélt þó áfram þrátt fyrir skammir forsetans en það fór að hitna í kolunum eftir að rannsókn sérstaks saksóknara Roberts Mueller kom til tals.

„Þú getur farið í fangelsi í staðinn,“ sagði forsetinn.

Viðtalið var tekið á mánudag, tveimur dögum áður en Trump hóf formlega kosningabaráttu sína fyrir forsetakosningarnar 2020 í Flórída.

Nokkrum sinnum í viðtalinu bað forsetinn um að fá að tjá sig við blaðamann í trúnaði, meðal annars eftir að hafa sýnt blaðamönnum Time-bréf sem hann sagði vera frá norður-kóreska leiðtoganum.

„Hérna er bréf. Okei, nú ætla ég að sýna þér þetta bréf,“ sagði forsetinn.

„Þetta bréf var sko skrifað af Kim Jong-un. Mér var afhent það í gær.“

Fljótt fauk í forsetann

Þegar samræðurnar sneru að mögulegum andstæðingum hans í kosningunum steig fráfarandi fjölmiðlafulltrúi forsetans, Sarah Sanders, inn í viðtalið og sagði við blaðamennina að þeir mættu ekki mynda bréfið.

Á Trump þá að hafa orðið harðorður og hváð við „hvað var þetta?!“

Viðtalið hélt svo áfram og blaðamaður spurði forsetann hvern hann sæi sem erfiðasta pólitíska andstæðing sinn fyrir næsta ár.

„Uh, ég veit ekki. Sjáðu til, mér finnst ég hafa gert svo mikið. Getur þú gefið mér listann yfir hlutina takk, fjóra lista,“ sagði Trump við aðstoðarmann og bætti svo við að listarnir höfðu verið settir saman sérstaklega fyrir viðtalið.

Forsetinn varð þó ekki sáttur þegar blaðamaður Time dró staðhæfingar hans í efa.

Blaðamaðurinn minnti forsetann á að sumir af aðstoðarmönnum hans höfðu „borið vitni undir eið, undir ógninni af fangelsisvist,“ og sagt forsetann hafa reynt að misleiða rannsókn sérstaks saksóknara Mueller.

Var Trump fljótur að bregðast við: „Afsakaðu mig… Jæja þá getur þú bara farið í fangelsi í staðinn, því ef þú notar, ef þú notar ljósmyndina sem þú tókst af bréfinu sem ég gaf þér í trúnaði. Ég gaf þér þetta ekki svo þú gætir tekið myndir af þessu, svo ekki spila þennan leik við mig.“

Þá spurði blaðamaður Time: „Fyrirgefðu hr. forseti. Varst þú að ógna mér með fangelsisvist?“

Þá svaraði forsetinn aftur: „Jæja ég sagði þér eftirfarandi. Ég sagði þér að þú mættir skoða þetta í trúnaði. Það þýðir ekki að þú nærð í myndavélina og byrjar að taka myndir af þessu. Okei? Svo ég vona að þú eigir ekki mynd af þessu.

„Þú getur ekki gert þetta. Svo farðu bara og skemmtu þér með greinina þína. Ég er viss um að þetta verði 28. hræðilega fréttin um mig í Time,“ sagði forsetinn.

Trump hefur lengi verið heillaður af Time og lét eitt sinn búa til fölsuð eintök með myndir af sér á forsíðu blaðsins til að ramma inn fyrir golfvelli sína.

Árið 2016 var Trump valinn maður ársins af tímaritinu og árið eftir sagðist hann hafa hafnað tilboði blaðsins um að fá heiðurinn annað árið í röð, en talsmenn Time sögðu það vera alrangt.

Í fyrra var „maður ársins“ eintak blaðsins tileinkað ofsóttum blaðamönnum.

mbl.is