Látin á heimili sínu síðan í febrúar

mbl.is/Atli Steinn

Lögreglan í Ósló stendur nú frammi fyrir máli sem snýr að andláti einstæðings á heimili í borginni sem lá þar látinn í marga mánuði þar til líkið uppgötvast. Ekki í fyrsta sinn og varla í síðasta.

Mál þetta er hins vegar óvenjulegt að því leytinu að ekki er hlaupið að því að bera kennsl á hina látnu. Aðrir íbúar í húsinu segja við norska dagblaðið VG að konan hafi verið hæglátur nágranni og haldið sig til hlés. Reyndar svo mjög að hún talaði aldrei við nágranna sína, ekki eitt orð, merkti hvorki hurð sína né póstkassa og hafði fjarlægt dyrabjöllu íbúðarinnar.

Enginn vissi því nokkurn skapaðan hlut um konuna og reynir lögreglan nú að finna út hver hún var. „Þetta er kennslamál, við vitum ekkert hver þetta var,“ segir Astrid Snijder Gjøsund, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, í samtali við VG. Gjøsund segir að lögreglu hafi borist tilkynning um málið en ekki sé unnt að gefa upp hvaðan hún barst vegna persónuverndarreglna.

Þáði enga félagslega aðstoð

Samkvæmt hverfisskrifstofu borgarinnar í Grünerløkka-hverfinu þáði konan hvorki félagslega aðstoð né styrki af neinu tagi. Hvorki VG né aðrir fjölmiðlar skýra hvernig á því standi að örðugt sé að bera kennsl á manneskju sem lætur lífið í félagslegri íbúð sem hún bjó í, íbúð sem sveitarfélagið lætur í té.

Aftenposten tók saman fjölda mála af þessu tagi í Ósló, þegar látið fólk finnst eftir meira en viku á heimili sínu. Reyndust tilfellin 141 tímabilið 2003 til 2017, að meðaltali tíu ár hvert.

VG hefur áður greint frá svipuðum málum, til dæmis því þegar tveir eldri borgarar fundust látnir á heimili sínu eftir að hafa legið þar í 191 dag. Var þar einnig um félagslega íbúð að ræða og höfðu nágrannar ekki séð fólkið síðan um jólin. Hálfu ári síðar var samband haft við lögreglu vegna þrálátrar lyktar í stigagangi.

Annað mál snerist um mæðgur, konu og tvær dætur, sem allar höfðu legið látnar í íbúð í rúman mánuð. Móðirin var 68 ára, dæturnar 35 og 28 ára. Engir ytri áverkar fundust á líkunum. Fjórum mánuðum síðar lágu niðurstöður krufningar fyrir og reyndust mæðgurnar þá hafa soltið í hel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert