Ævintýralegur flótti ítalsks skógarbjarnar

Ríkisstjóri Trentino hafði gefið skógarvörðum leyfi til þess að skjóta …
Ríkisstjóri Trentino hafði gefið skógarvörðum leyfi til þess að skjóta M49 á færi. Mynd úr safni. AFP

Skógarverðir í Trentino á Ítalíu leita nú logandi ljósi að skógarbirni sem hylltur hefur verið sem ofurhetja eftir að hann slapp úr haldi yfirvalda.

Björninn, sem ber heitið M49, var fangaður á sunnudag, en hann var talinn hættulegur mannfólki og húsdýrum á svæðinu. Hann var hins vegar flúinn aðeins nokkrum klukkustundum síðar.

Flótti hans vekur vægast sagt undrun, enda þurfti hann að fara yfir þrjár rafmagnsgirðingar og fjögurra metra háan vegg til að sleppa úr haldi.

Leyfi til að skjóta björninn afturkallað

Ríkisstjóri Trentino hafði gefið skógarvörðum leyfi til þess að skjóta M49 á færi, enda sýndi flótti hans yfir 7.000 volta rafmagnsgirðingar hversu hættulegur hann væri. Dýraverndarsinnar hreyfðu hins vegar mótmælum við ákvörðun ríkisstjórans og umhverfisráðherra Ítalíu, Sergio Costa, hefur í kjölfarið afturkallað leyfið til þess að skjóta björninn.

Hin ýmsu dýraverndarsamtök hafa hvatt M49 til dáða og vonast til að hann nái að flýja skógarverðina. Margir efast þó um sögurnar af flótta hans yfir rafmagnsgirðingarnar, enda séu birnir ófleygir. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert