Stjórnlausir gróðureldar á Gran Canaria

Um 9.000 manns hafa nú neyðst til að yfirgefa heimili …
Um 9.000 manns hafa nú neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna eldanna og segja yfirvöld um „umhverfishörmungar“ að ræða. AFP

Gróðureldar sem logað hafa á Gran Canaria, einni Kanaríeyjanna, frá því á laugardag eru nú stjórnlausir. Eldtungurnar hafa teygt sig allt að 50 metra upp í lofti og hefur fyrir vikið ekki alls staðar verið hægt að nota flugvélar til að sleppa vatni yfir svæðið.

Um 9.000 manns hafa nú neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna eldanna og segja yfirvöld um „umhverfishörmungar“ að ræða.

Um er að ræða þriðju gróðureldana sem kviknað hafa í fjalllendinu á miðju eyjunnar á 10 dögum og hefur þurft að flytja fólk á brott úr nokkrum þorpum á svæðinu.

Engin hefur farist í eldunum svo vitað sé og þá hafa eldarnir enn ekki haft áhrif á ferðamannasvæðin við ströndina. 100 manns eru þó innilokaðir í Artarena þorpinu, sem er á skrá yfir menningaminjar þar sem eldarnir hafa lokað á umferð þangað. Fjöldi heimila hefur einnig eyðilagst i eldinum.

„Þetta eru umhverfishörmungar“

Þá hafa yfirvöld beðið Rauða krossinn og yfirvöld um 600 rúm til að hýsa hluta þeirra sem senda þurfti á brott. Þeim sem enn dvelja á svæðinu hefur verið sagt að halda sig fjarri gluggunum þar sem rúður kunni að springa í hitanum.

„Þetta eru umhverfishörmungar,“ sagði Angel Victor Torres, forseti Kanaríeyja á fundi með fréttamönnum.

Eldurinn hefur þegar eyðilagt um 6.000 hektara lands
Eldurinn hefur þegar eyðilagt um 6.000 hektara lands AFP

Yfirmaður sveitastjórnar á Gran Canaria, Antonio Morales, segist í samtali við Guardian telja eldinn vera viljaverk, ekki sé þó búið að staðfesta slíkt.

Um 1.000 slökkviliðsmenn vinna nú að því að ráða niðurlögum eldanna og 14 þyrlur með sleppingabúnaði fyrir vatnsbelgi hafa verið nýttar til verksins. Eldurinn hefur þegar eyðilagt um 6.000 hektara lands og eiga fleiri þyrlur að bætast í hópinn á morgun.

Eru þetta umfangsmestu slökkviliðsaðgerðir sem nokkurn tímann hafa verið unnið að á Kanaríeyjum. „Eldurinn er svo ofsafenginn á því svæði sem tilheyrir UNESCO lífheiminum að að sumum svæðum verður ekki hægt að slökkva hann,“ sagði Federico Grillo yfirmaður hjálparsveita á Gran Canaria.

Næstu tveir sólarhringar skipta sköpum

Segir landbúnaðarráðherrann Luis Planas næstu tvo sólarhringa munu skipta sköpum.

Lourdes Hernandez, sérfræðingur í gróðureldum hjá World Wildlife Fund samtökunum segir gróðureldana nú hafa náð inn í Tamadaba þjóðgarðinn, furuskógarsvæði sem séu ein „helstu grænu lungu eyjunnar“. Eldurinn ógnar einnig Inagua náttúruverndarsvæðinu, sem einnig er mikilvægt líffræðilegum fjölbreytileika eyjunnar.

Segir hann sérfræðinga kenna loftslagsbreytingum um hraða útbreiðslu eldanna nú. „Heiftin sem eldarnir berast með og ákafinn við framlínuna valda því að enn öfgakenndari veðrabrigði myndast innan eldanna og glóð nær þannig stundum að stökkva hundruð metra,“ sagði Hernandez.

mbl.is

Bloggað um fréttina