Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér

Giuseppe Conte tilkynnti þinginu um afsögn sína í dag.
Giuseppe Conte tilkynnti þinginu um afsögn sína í dag. AFP

Giuseppe Conte hefur sagt af sér embætti forsætisráðherra Ítalíu. Hann hefur gegnt embætti forsætisráðherra í samsteypustjórn Bandalagsins, flokks Matteo Salvini innanríkisráðherra, og Fimm stjörnu hreyfingarinnar, en sjálfur er Conte óflokksbundinn.

Stirt hefur verið milli Conte og Salvini, sem margir telja valdamestan ítalskra stjórnmálamanna þrátt fyrir að gegna embætti innanríkisráðherra. 

Fyrr í mánuðinum lýsti Salvini því yfir að ríkisstjórnarsamstarfi flokks síns og Fimm stjörnu hreyfingarinnar væri lokið og fór þess á leit við forseta landsins að hann boðaði til kosninga. Er talið að Salvini vilji með þeim bæta hlut flokksins, sem hlaut um 30% atkvæða í þingkosningunum í fyrravor, svipað og Fimm stjörnu hreyfingin, en hefur frá því aukið fylgi sitt lítillega á sama tíma og Fimm stjörnu hreyfingin hefur dalað og hlaut hún til að mynda aðeins 17% atkvæða í Evrópuþingkosningunum í vor.

Hefur Conte lýst þessari ákvörðun sem „óábyrgri“ og að Salvini skapi stjórnmálakreppu í landinu til að tryggja hag „sjálfs sín og flokksins“.

mbl.is