Íbúar óttast um heilsufar

AFP

Hundruð nýrra skógarelda loga í Amazon-regnskóginum í norðurhluta Brasilíu, að því er fram kemur í tölum frá stjórnvöldum. Aukinn þrýstingur er frá alþjóðasamfélaginu um að forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, grípi til aðgerða til að ná stjórn á verstu skógareldum á svæðinu árum saman. 

Brasilíski herinn hefur verið sendur á vettvang.
Brasilíski herinn hefur verið sendur á vettvang. AFP

Amazon-regnskógarnir eru alls um 5,5 milljónir ferkílómetra að stærð og stærstur hluti svæðisins er í Brasilíu. Regnskógar eru tegundaríkustu vistkerfi heimsins og þeim hefur verið lýst sem lungum jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum sem eru stærsta regnskógasvæði jarðar, að því er fram kemur í grein eftir Jón Má Halldórsson líffræðing á Vísindavefnum. Enn fremur er mikið af kolefni bundið í regnskógunum og eyðing þeirra getur aukið gróðurhúsaáhrif sem eru talin stuðla að loftslagsbreytingum á jörðinni.

Jón Már bendir m.a. á að í „gríðarlega fjölbreyttri fánu og flóru regnskóganna“ séu „ýmis efni sem gætu nýst til að vinna á sjúkdómum í nánustu framtíð“. Segja megi að regnskógarnir séu „lyfjasafn af stjarnfræðilegri stærðargráðu“.

AFP

Landbúnaður er helsta ástæða þess að gengið hefur stórlega á regnskóga jarðar síðustu áratugi. Skógareyðingin á Amazon-svæðinu er einkum rakin til vaxandi nautgriparæktar vegna mikillar spurnar eftir nautakjöti á Vesturlöndum. Margir fátækir bændur í Brasilíu hafa beitt þeirri aðferð að brjóta gróðurinn niður til að brenna hann og taka nýtt land til ræktunar. Hætt er þá við að bændurnir missi stjórn á eldinum og hann breiðist út með alvarlegum afleiðingum fyrir dýra- og plöntulífið.

AFP

Íbúar í höfuðstað Rondônia-ríkis, Porto Velho, segja að það sem virðist vera ljós ský yfir borginni sé alls ekki ský heldur reykur frá eldunum. „Ég hef miklar áhyggjur af umhverfinu og heilbrigði,“ segir Delmara Conceicao Silva í viðtali við AFP. Hún segir að dóttir hennar sé með öndunarfærasjúkdóm og líðan hennar hafi versnað vegna eldanna. 

Skógareldarnir eru helsta umræðuefnið á leiðtogafundi G7-ríkjanna í franska bænum Biarritz um helgina. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Brasilíu hafa kviknað 78.383 eldar það sem af er ári. Yfir helmingur eldanna er í Amazon þar sem yfir 20 milljónir búa. Um 1.663 eldar kviknuðu á fimmtudag og föstudag. 

mbl.is