Afkastamesti raðmorðingi Bandaríkjanna

Samuel Little hefur játað 93 morð.
Samuel Little hefur játað 93 morð. AFP

Enginn raðmorðingi hefur drepið jafn marga í Bandaríkjunum og Samuel Little, sem er 79 ára gamall, en hann hefur játað á sig 93 morð. Bandaríska alríkislögreglan greindi frá þessu í gær en rannsóknir hafa þegar staðfest að hann ber ábyrgð á 50 þeirra. 

Morðin framdi Samuel Little á árunum 1970 til 2005 og flest fórnarlamba hans voru konur, samkvæmt upplýsingum frá FBI. Þrátt fyrir að ekki sé búið að staðfesta aðild Little að nema 50 þeirra 93 morða sem hann segist hafa framið efast FBI ekki um að hann hafi myrt alla þá sem hann segist hafa drepið.

FBI hefur sett upp sérstakt vefsvæði þar sem hægt er að horfa á upptökur af játningum Little ásamt teikningum Little af fólkinu sem hann segist hafa drepið. Margir þeirra sem hann hefur játað að hafa drepið voru taldir hafa ofskammtað eða látist af slysförum. Sum líkanna hafa aldrei fundist segir á vef FBI. Little var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2014 fyrir þrjú morð. 

Að sögn Christie Palazzolo, greinanda hjá FBI, taldi Samuel Little lengi vel að hann yrði aldrei gómaður fyrir glæpi sína þar sem enginn hélt utan um málin og sá samhengi á milli andlátanna. Þrátt fyrir að Little afpláni lífstíðardóm telur FBI mikilvægt að ná fram réttlætinu í hverju máli fyrir sig og fá staðfest að hann beri ábyrgð á dauða 93 einstaklinga. 

mbl.is