Neyddust til að láta son „El Chapo“ lausan

Til átaka kom milli lögreglu og Sinaloa-eiturlyfjagengisins í borginni Culiacán …
Til átaka kom milli lögreglu og Sinaloa-eiturlyfjagengisins í borginni Culiacán í gær, eftir að leiðtogi gengisins, sonur „El Chapo“ var handtekinn. AFP

Hörð átök brutust út milli mexíkóskra öryggissveita og glæpamanna Sinaloa-eiturlyfjagengisins í borginni Culiacán í gær, eftir að leiðtogi gengisins var handtekinn. 

Öryggissveitirnar voru við venjubundið eftirlit þegar Ovidio Guzman, einn þriggja sona eiturlyfjaforingjans Joaquin Guzm­an, sem oft­ast er kallaður „El Chapo“, varð óvænt á vegi þeirra. Talið er að hann hafi tekið við stjórnartaumum í genginu eftir að „Sá stutti“ var dæmd­ur til lífstíðarfang­elsis­vist­ar fyr­ir dóm­stól­um í New York í Banda­ríkj­un­um í júlí. Hann var meðal ann­ars sak­felld­ur fyr­ir eit­ur­lyfja­smygl og pen­ingaþvætti. 

Ovidio Guzman, sem er á þrítugsaldri og eftirlýstur í Bandaríkjunum vegna eiturlyfjasmygls, var handtekinn um leið og lögreglan áttaði sig á um hvern ræddi. Við það brutust út hörð átök milli öryggissveitanna og glæpagengisins.

Skotbardagi braust út við fangageymsluna þar sem Guzman var haldið. Öryggissveitirnar nutu aðstoðar hersins í átökunum en svo fór að lokum að Guzman var sleppt úr haldi, til að tryggja öryggi almennings í borginni, líkt og Alfonso Durazo, ráðherra almannaöryggis, orðaði það, en glæpagengið hafði gert árásir á mörgum stöðum í borginni. 

Engum varð meint af vegna átakanna en margir borgarar urðu skelkaðir.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert