Þingið kýs um Brexit í dag

Boris Johnson forsætisráðherra hefur unnið hörðum höndum að því undanfarna …
Boris Johnson forsætisráðherra hefur unnið hörðum höndum að því undanfarna sólarhringa að tryggja meirihluta fyrir samningnum. AFP

Neðri deild breska þingsins kemur saman í dag og það í fyrsta sinn á laugardegi síðan Argentína reyndi að ná yfirráðum á Falklandseyjum 1982.

Tilefnið er nýr samningur sem náðst hefur á milli ríkisstjórnar Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu þess fyrrnefnda úr sambandinu.

Boris Johnson forsætisráðherra hefur unnið hörðum höndum að því undanfarna sólarhringa að tryggja meirihluta fyrir samningnum til þess að eiga ekki sömu örlög og forveri hans í starfi, Theresa May.

Mjótt á munum hvorn veginn sem fer

Á hvorn veginn sem fer er búist við því að ansi mjótt verði á munum. Ráðherra Brexit, Stephen Barclay, segir ríkisstjórnina hafa tekið mið af áhyggjum allra þingmanna við gerð nýs samnings.

„Það er kominn tími á að þingmenn stígi upp og ábyrgist að samningurinn komist í gegn svo Bretland geti haldið áfram,“ sagði hann í morgunþættinum BBC Breakfast.

Þing kemur saman kl. 9:30 að staðartíma, eða kl. 8:30 að íslenskum tíma, en ekki er búist við því að atkvæðagreiðsla um samninginn fari fram fyrr en síðdegis.

Frétt BBC

mbl.is