„Það mun ekki bjóðast betri lausn“

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, er vongóður um að breska þingið …
Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, er vongóður um að breska þingið samþykki útgöngusamning ríkistjórnarinnar á morgun og segir að hann sé besta lausn á Brexit-deilunni sem mun bjóðast. AFP

„Ég bið alla um að ímynda sér hvernig staðan gæti orðið annað kvöld ef við göngum frá málinu á morgun með því að virða vilja þjóðarinnar. Þá höfum við tækifæri til að setja Brexit í baksýnisspegilinn og hefja nýtt og spennandi samstarf við vini okkar í Evrópu, ekki bara þá sem eru í Evrópusambandinu heldur allar Evrópuþjóðir,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í samtali við fréttastofu BBC í kvöld.

Vongóður um að samningurinn verði samþykktur

Útgöngusamningur ríkisstjórnar Johnson verður lagður fyrir breska þingið á morgun til umfjöllunar og mikil spenna og eftirvænting ríkir um það hvernig atkvæðagreiðslan um samninginn fer. Evrópusambandið og breska ríkisstjórnin hafa lýst samningnum sem sanngjarnri málamiðlun en þrátt fyrir það er ljóst að margir breskir þingmenn munu ekki sjá sér fært að samþykkja samninginn.

Johnson sagði við fréttastofu BBC í kvöld að hann væri vongóður um að samningurinn yrði samþykktur og að Bretland myndi ekki bjóðast betri samningur yrði þessi felldur í þinginu.

Verði út­göngu­samn­ingn­um hafnað er John­son lög­um sam­kvæmt skylt að óska eft­ir því við Evr­ópu­sam­bandið að út­göng­unni verði frestað að minnsta kosti til 31. janú­ar. Hins veg­ar hafa for­ystu­menn sam­bands­ins sagt að verði samn­ingn­um hafnað verði ekki frek­ari frest­un í boði. Standi Evr­ópu­sam­bandið við það er vart annað í boði en út­ganga án samn­ings.

Lýðræðis­legi sam­bands­flokk­ur­inn (DUP) á Norður-Írlandi hef­ur lýst því yfir að hann geti ekki samþykkt samn­ing John­sons og Jeremy Cor­byn, leiðtogi Verka­manna­flokks­ins, hefur einnig hafnað því að greiða atkvæði með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandi á þeim forsendum sem samningurinn byggir á.

Reynir að sannfæra einstaka þingmenn andstöðuflokka

Ríkisstjórn Johnson vinnur því að því núna að reyna sannfæra einstaka þingmenn Verkamannaflokksins og fyrrverandi þingmenn Íhaldsflokksins að samningurinn sé sá besti sem Bretlandi býðst og mun bjóðast í þeim tilgangi að ná meirihluta fyrir útgöngunni.

Samningur Johnson er svipaður þeim sem Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, lagði fyrir breska þingið og var hafnað en málefni Norður-Írlands og ákvæðum er varða landamæraeftirlit við landamæri Írlands hefur þó verið breytt.

„Það mun ekki bjóðast betri lausn en sú sem ég mun leggja fyrir þingið á morgun,“ sagði Johnson.

mbl.is