Höfða mál gegn tölvuleikjaframleiðanda og Meta

Í gær voru tvö ár frá árásinni.
Í gær voru tvö ár frá árásinni. AFP

Fjölskyldur fórnarlamba skotárásarinnar í Robb-grunn­skól­an­um í Uvalde í Texas í maí árið 2022 hafa höfðað mál gegn framleiðanda skotvopnsins sem árásarmaðurinn notaði, tölvuleikjaframleiðanda og Meta, eiganda samfélagsmiðilsins Instagram. 

Í gær voru tvö ár frá árásinni þar sem 19 nemendur og tveir kennarar létu lífið áður en lögregla skaut byssumanninn til bana. 

Málin tvö eru höfðuð gegn fyrirtækjum sem aðstandendurnir telja að hafi hjálpað að kynna hættuleg vopn fyrir kynslóð „félagslega viðkvæmra“ ungra manna, þar á meðal árásarmannsins sem var 18 ára gamall. 

Málin eru höfðuð í Texas og Kaliforníu og eru gegn tölvuleikjaframleiðandanum Activision, sem framleiðir meðal annars leikinn Call of Duty, vopnaframleiðandanum Daniel Defense, sem er þekktur fyrir framleiðslu árásarriffla, og tæknifyrirtækinu Meta. 

BBC greinir frá því að fyrirtækin eru sökuð um að „tæla“ (e. grooming) kynslóð ungs fólks sem gerir ofbeldisfullar fantasíur að raunveruleika. 

19 börn og tveir fullorðnir létu lífið í árásinni.
19 börn og tveir fullorðnir létu lífið í árásinni. AFP

„Þríhöfða skrímsli“

Árásarmaðurinn, Salvadir Ramos, notaði AR-15 riffil í árásinni og telja aðstandendurnir aðgengi að slíkum vopnum of mikið. 

Meta og Activision eru sökuð um að hafa „vísvitandi kynnt“ Ramos fyrir vopninu og skilyrt hann til þess að telja að riffilinn væri lausnin að öllum vandamálum hans. 

Instagram, Activision og Daniel Defense eru sökuð um að vera í „samstarfi“ og „herja á óörugga og unga drengi“.

Í yfirlýsingu verjanda aðstandendanna segir að það sé bein tenging á milli framkomu fyrirtækjanna og skotárásarinnar. 

„Þetta þríhöfða skrímsli kynnti hann vísvitandi fyrir vopninu, skilyrti hann til þess að telja að um tól væri að ræða sem myndi laga öll hans vandamál og kenndi honum að nota það.“

Spilaði Call of Duty frá 15 ára aldri 

Samkvæmt málsgögnum hafði Ramos spilað tölvuleikinn Call of Duty frá 15 ára aldri. Þar notaðist hann við svipað vopn og hann notaði til þess að myrða fórnarlömbin. 

Þá segir að sama tíma hafi Daniel Defense beint markaðsefni sínu að honum í gegnum Instagram. 

Instagram hafi þannig myndað tengingu á milli skotvopnaframleiðandans og árásarmannsins.

Milljónir manna spila tölvuleiki 

Talsmaður Activision sagði að skotárásin hefði verið skelfileg og vottaði fórnarlömbunum og fjölskyldum þerra samúð.  

„Milljónir manna um allan heim spila tölvuleiki án þess að fremja hræðilega glæpi,“ sagði talsmaðurinn. 

Á miðvikudag komust fjölskyldur fórnarlambanna að samkomulagi við Uvalde-borg um tveggja milljóna dollara skaðabætur.

Fleiri en 370 lögreglumenn voru við skólann er árásin átti sér stað. Það tók lögreglumenn hins vegar meira en klukkustund að stöðva árásarmanninn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert