O'Rourke mistókst að verða ríkisstjóri

O'Rourke á fjöldafundi með stuðningsmönnum sínum í október.
O'Rourke á fjöldafundi með stuðningsmönnum sínum í október. AFP

Greg Abbott ríkisstjóri Texas hefur náð endurkjöri og mun því gegna embættinu þriðja kjörtímabilið í röð.

Þetta fullyrðir fréttastofa NBC og byggir á þeim atkvæðum sem þegar hafa verið talin.

Demókratinn Beto O'Rourke hafði vonast til að velta Abbott af stóli í kosningunum. Á tímabili töldu stjórnmálaskýrendur enda að kosningabarátta þeirra yrði með þeim áhugaverðustu fyrir þessar kosningar.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas.
Greg Abbott, ríkisstjóri Texas. AFP

Truflaði blaðamannafund

Fjögur ár eru liðin frá því O'Rourke var nálægt því að fella repúblikanann Ted Cruz úr sæti öldungadeildarþingmanns.

Í maí truflaði hann blaðamannafund ríkisstjórans, degi eftir skotárásina í bænum Uvalde í ríkinu, þar sem nítján börn voru myrt auk tveggja kennara.

Skellti hann þar skuldinni meðal annars á stuðning Abbotts við skotvopnaburð almennings, áður en lögregla fylgdi honum út.

Framboð hans virðist samt sem áður ekki hafa náð sama árangri og árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert